Sextán ára drengur hefur verið dæmdur í fangelsi af Héraðsdómi Reykjaness fyrir mörg brot af ýmsu tagi sem framin voru á árunum 2024 og 2025.
Hann var með annars ákærður fyrir líkamsárás á bifreiðastæði og gangstétt við Vatnaveröld í Reykjanesbæ, ráðist með ofbeldi að dreng með því að slá hann fjórum sinnum með krepptum hnefa í hægri öxl, allt með þeim afleiðingum að drengurinn hlaut eymsli í framanverðri öxlinni yfir deltoid vöðva.
Þá var hann ákærður fyrir líkamsárás á bifreiðastæði við Krossmóa í Reykjanesbæ, ráðist með ofbeldi að strætóbílstjóra sem stóð í hurðagátt strætisvagnsbifreiðar, og slegið hann einu höggi með krepptum hnefa í andlitið þegar bílstjórinn hugðist vísa stráknum út úr strætisvagninum, allt með þeim afleiðingum að bílstjórinn hlaut þreifieymsli og bólgu yfir kinnbeininu og fyrir neðan vinstra neðra augnlok auk þess sem gleraugu hans brotnuðu.
Hann var sömuleiðis ákærður fyrir líkamsárás í kyrrstæðum strætisvagni í bifreiðastæði við Krossmóa í Reykjanesbæ, ráðist með ofbeldi að bílstjóra og slegið hann einu höggi með krepptum hnefa í andlitið þegar bílstjórinn hugðist vísa honum út úr strætisvagninum, allt með þeim afleiðingum að ökumaðurinn hlaut blóðnasir úr hægri nös, þreifieymsli og bólgu yfir kinnbeini, medialt auk þess sem kvarnaðist úr framtönn hægra megin
Hann var einnig ákærður fyrir líkamsárás á gangstétt við strætóskýli við Krossmóa í Reykjanesbæ, ráðist með ofbeldi að bílstjóra þegar að bílstjórinn neitaði ákærða að koma um borð í strætisvagn, og slegið hann einu höggi með krepptum hnefa í andlitið þannig að ökumaðurinn féll og skall með höfuðið í götunni en drengurinn féll með bílstjórunum í götuna, þar sem strákurin sló bílstjórann aftur í andlitið og sparkaði í bringu hans þegar að fórnarlambið reyndi að standa upp, allt með þeim afleiðingum að það hlaut hrufl á hægri kinn fyrir neðan auga auk þess [sem] króna brotnaði af tönn.
Hann var jafnframt ákærður fyrir að ráðast með ofbeldi að konu með því að hafa gripið í og ýtt við henni þannig að hún rak höfuðið í borðplötu, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut sár á neðri vör.
Að lokum var hann ákærður fyrir líkamsárás á gangstétt við strætóskýli við Krossmóa í Reykjanesbæ, ráðist með ofbeldi að vagnstjóra þegar að hann vísaði drengnum út úr strætisvagni, með því að hafa ýtt honum út um dyr strætisvagnsins þannig að bílstjórinn féll í jörðina þar sem strákurinn sló fórnarlamb sitt ítrekað með krepptum hnefa í andlitið og líkama auk þess sem strákur sparkaði í vinstri hönd hans, allt með þeim afleiðingum að bílstjórinn hlaut blóðnasir, bólgur og eymsli í andliti og nefi auk brots á löngutöng vinstri handar, þá brotnuðu gleraugu sem vagnstjórinn var með á sér.
„Ef hann myndi snitch-a mig myndi ég drepa hann“
Það voru þó ekki einu brotin sem hann var ákærður fyrir heldur var hann ákærður fyrir að hafa í tvígang hníf á sér og fíkniefni.
Í dómnum er vitnað í drenginn í nokkur skipti og sagði hann meðal annars um bílstjóra sem ætlaði að reka hann út: „Ég er ekki að fara drulla mér út ef þessi hommi segir mér að drulla mér út. Hann á að keyra.“
Þá sagði hann þegar hann var spurður út í árásina við Vatnaveröld: „Ef hann myndi snitch-a mig myndi ég drepa hann en ekki lemja hann í öxlina.“
Drengurinn var á endanum dæmdur í sex mánaða fangelsi en dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára. Hann játaði sum brot en ekki önnur. Þá þarf hann að greiða fórnarlömbum sínum rúmar tvær milljónir króna í miskabætur og 1,3 milljónir í málskostnað og svo þarf hann að borga 2,9 milljónir í sakarkostnað.

Komment