
92 ára gamall breskur maður var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir nauðgun og morð sem átti sér stað árið 1967.
Ryland Headley var sakfelldur fyrir að hafa nauðgað og myrt hina 75 ára gömlu Louisa Dunne eftir að hafa brotist inn á heimili hennar fyrir nærri 60 árum. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi með lágmarksdómi upp á 20 ár í dómstól í Bristol í suðvesturhluta Englands.
Eftir að dómurinn var kveðinn upp sagði dómari Derek Sweeting við Headley: „Þú munt aldrei verða látinn laus, þú munt deyja í fangelsi.“
Hann sagði að Headley, sem var 34 ára þegar glæpurinn átti sér stað, hefði „brotið gegn friðhelgi og öryggi heimilis frú Dunne, þar sem hún átti fullan rétt á að vera örugg.“
Hann nefndi einnig fyrri sakfellingar Headleys fyrir að hafa brotist inn til tveggja aldraðra ekkna árið 1977 og nauðgað þeim.
Upphaflega var hann dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir þá glæpi, en dómnum var síðar breytt í sjö ár eftir áfrýjun.
Þeir glæpir sýndu „skelfilegt hegðunarmynstur“, sagði dómarinn.
Lögreglan hóf rannsókn á máli Dunne á ný árið 2023 og bar saman DNA úr pilsi fórnarlambsins og öðrum gögnum úr upphaflegri rannsókn við DNA Headleys. Hann hafði aðeins setið um tvö ár í fangelsi fyrir glæpi sína árið 1977.
Komment