
Knattspyrnudeild Aftureldingar minnist Guðjóns Ármanns Guðjónssonar, sjálfboðaliði hjá knattspyrnudeildinni og foreldri hjá félaginu en hann lést á dögunum, langt fyrir aldur fram. Birti félagið minningarorð um Guðjón á Facebook.
Þar kemur fram að leikmenn Aftureldingar hafi spilað með sorgarbönd í sigurleik sínum gegn Stjörnunni í fyrradag, til að minnast Guðjóns. Áður en leikurinn hófst klöppuðu þátttakendur leiksins og áhorfendur fyrir Guðjóni í mínútu, honum til heiðurs.
„Guðjón var einn af þeim sem var alltaf klár þegar á þurfti að halda, alveg sama hvert tilefnið var. Skipuleggja heimaleiki, standa í gæslu, safna styrktar- og samstarfsaðilum, eða halda utan um herrakvöld.“ Þetta segir meðal annars í minningarfærslunni um Guðjón.
Hér má sjá alla færsluna:
„Í sigurleik Aftureldingar á Stjörnunni í gærkvöldi spiluðu leikmenn Aftureldingar með sorgarbönd til að minnast Guðjóns Ármanns Guðjónssonar. Guðjón var öflugur sjálfboðaliði knattspyrnudeildar Aftureldingar og foreldri hjá félaginu en hann féll frá í síðustu viku, allt of snemma. Fyrir leikinn á Malbikstöðinni að Varmá í gærkvöldi klöppuðu þátttakendur leiksins og áhorfendur fyrir Guðjóni í eina mínútu til að heiðra minningu hans.
Guðjón var einn af þeim sem var alltaf klár þegar á þurfti að halda, alveg sama hvert tilefnið var. Skipuleggja heimaleiki, standa í gæslu, safna styrktar- og samstarfsaðilum, eða halda utan um herrakvöld. Gaui var alltaf mættur og klár. Hann hafði orkuna og viljan, og mikla ástríðu til að styrkja knattspyrnulið Aftureldingar og byggja þannig upp fótboltann í Aftureldingu.
Aftureldingar fjölskyldan hefur kvatt einn af sínum bestu mönnum. Afturelding sendir fjölskyldu og vinum Guðjóns innilegar samúðarkveðjur.“
Komment