
Að minnsta kosti 100 Palestínumenn voru drepnir í stórfelldum loftárásum Ísraelshers á Gaza í nótt, þar af 18 úr sömu fjölskyldunni. Þetta kemur fram í umfjöllun fréttaritara Al Jazeera í Gaza-borg, Hani Mahmoud.
„Frá því í morgun höfum við séð að sú stutta von um rósemi hefur breyst í örvæntingu. Himinninn er fullur af orrustuþotum, drónum og njósnaflugvélum,“ skrifar Mahmoud og bætir við að Gaza-búar óttist nú að þær árásir sem hófust í gærkvöldi muni halda áfram næstu daga.
Segir Mahmoud að nóttin hafi verið ein sú mannskæðasta frá því að Ísraelar hófu þjóðarmorðið, eftir árás Hamas-liða 7. október, 2023.
„Ríkjandi stemning hér er skelfing og ótti þar sem Gaza hefur lifað eina mannskæðustu nóttina hingað til og fyrir marga er þetta óhugnanleg áminning um fyrstu vikur þjóðarmorðsins, hvað varðar umfang og eyðileggingu sem gríðarstórar sprengjur yfir Gaza-borg ollu.“
Að minnsta kosti 100 eru taldir hafa látist í árásunum í nótt og eins og áður eru konur og börn í meirihluta fórnarlambanna.
„Af þeim 42 sem létust í miðhluta Gaza voru 18 úr einni og sömu fjölskyldunni … þrjár kynslóðir sem létust í einni árás á heimili þeirra, börn, foreldrar og afar og ömmur,“ skrifar Mahmoud og bætir við að í Gaza-borg hafi sprengingar ómað alla nóttina og valdið skelfingu í heilu íbúðarhverfunum, „lýst upp himininn og juku óttann“.
Þá segir fréttaritarinn að staðan á þeim sjúkrahúsum sem enn virka að einhverju leiti sé mjög erfið. Þar séu gangar fullir af fórnarlömbum, harmi slegnum fjölskyldum og blóði drifnum eftirlifendum.
„Umbreytingin frá von um að vopnahléið héldi áfram og færði fólki frið í hugann hefur breyst í svartnætti,“ skrifar Mahmoud og bætir að lokum við:
„Ef vopnahlé lítur svona út, er stórt spurningarmerki við það hvort það geti staðið og virkað.“

Komment