
Fyrrverandi ofursti í bandaríska hernum, sem vann að skýrslu um morð ísraelska hersins á fréttakonunni Shireen Abu Akleh hjá Al Jazeera, segist hafa verið hótað uppsögn fyrir að andmæla „mýkri útgáfu“ af frásögn málsins.
Steve Gabavics sagði í viðtali við Al Jazeera að hann og teymi hans hefðu verið „mjög ósátt“ við þá afstöðu bandaríska utanríkisráðuneytisins að dauði Abu Akleh í maí 2022 hefði verið „afleiðing hörmulegra aðstæðna“. Hann sakaði Biden-stjórnina um að hafa hunsað niðurstöður teymisins og tekið undir frásögn Ísraels í staðinn.
„Mitt teymi allt var mjög ósátt, eins og margir aðrir, því frá upphafi lögðum við fram að þetta hefði ekki verið slys, þetta var ekki atvik í þoku stríðsins,“ sagði Gabavics.
„Í raun og veru ákvað [Biden-stjórnin] að fylgja því sem IDF [ísraelski herinn] lagði til, að þetta hefði verið hörmulegt slys,“ bætti hann við.
Gabavics sagðist hafa „barist fyrir þessu í bókstaflega tvö ár“ og að hann hafi verið tekinn úr verkefninu og jafnvel „hótað að missa starfið“ ef hann hætti ekki að andmæla.
Shireen Abu Akleh, áberandi palestínsk-bandarísk blaðakona, var skotin til bana af ísraelskum hermönnum þegar hún fjallaði um aðgerð í flóttamannabúðunum í Jenin. Leyniskytta skaut Abu Akleh í hnakkann en annar blaðamaður, Ali Samodi frá Al-Quds dagblaðinu var einnig skotinn í bakið í árásinni. Hann lifði þó af.

Komment