
Kanadíski blaðaljósmyndarinn Valerie Zink hefur sagt skilið við Reuters eftir átta ára samstarf við fréttastofuna. Hún segir ákvörðunina óhjákvæmilega í ljósi þess að Reuters hafi „réttlætt og gert mögulega kerfisbundna aftöku 245 blaðamanna á Gaza.“
„Ég skulda palestínskum samstarfsmönnum mínum minnst þetta, og miklu meira,“ skrifaði Zink í færslu á Facebook þar sem hún tilkynnti ákvörðun sína.
Zink hefur síðustu ár starfað sem sjálfstætt starfandi ljósmyndar fyrir Reuters og verk hennar verið birt í fjölmiðlum á borð við New York Times og Al Jazeera. Hún gagnrýnir Reuters harðlega fyrir að taka upp og birta ósannaðar fullyrðingar Ísraelsher um blaðamenn á Gaza.
Hún nefnir sérstaklega morðið á Anas Al-Sharif, fréttamanni Al Jazeera sem hlaut Pulitzer-verðlaun fyrir störf sín fyrir Reuters. Þegar Al-Sharif og allt fréttateymi Al Jazeera í Gaza borg voru drepin 10. ágúst, hafi Reuters kosið að birta fullyrðingu Ísraels um að hann væri Hamas-liði, „ein af ótal lygum sem fjölmiðlar eins og Reuters hafa endurtekið dyggilega og af skyldurækni.“
„Vilji Reuters til að endurtaka áróður Ísraels, hefur ekki bjargað þeirra eigin fréttamönnum undan þjóðarmorði Ísraels,“ skrifar hún og vísar til þess að fimm blaðamenn, þar á meðal Reuters-myndatökumaðurinn Hossam Al-Masri, hafi verið drepnir í árás á Nasser-sjúkrahúsið á dögunum.
Zink vitnar einnig til orða bandaríska blaðamannsins Jeremy Scahill sem sagði að „frá New York Times til Washington Post, frá AP til Reuters hafi allar helstu fjölmiðlaveitur orðið færiband fyrir áróður Ísraels, hvítþvegið stríðsglæpi og yfirgefið kollega sína og meinta skuldbindingu við heiðarlega fréttamennsku.“
Í færslu sinni segir Zink að Vestrænir miðlar hafi með þessu skapað aðstæður þar sem fleiri blaðamenn hafi verið drepnir á tveimur árum á Gaza en samanlagt í fyrri heimsstyrjöld, seinni heimsstyrjöld, Kóreustríðinu, Víetnamstríðinu, stríðinu í Afganistan, Júgóslavíu og Úkraínu.
„Ég get ekki lengur gengið með pressukort Reuters nema með djúpri skömm og sorg,“ skrifar hún. „Ég veit ekki hvernig á að byrja að heiðra hugrekki og fórnfýsi blaðamanna á Gaza, þeirra bestu og hugrökkustu sem hafa lifað, en framvegis mun ég beina allri minni orku í að leggja mitt af mörkum með þá hugsjón að leiðarljósi.“
Komment