Í færslu hjá Borgarbókasafninu í gær hrósar safnið Nönnu Rögnvaldardóttur sérstaklega en hún hefur verið mikið í umræðunni eftir að Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður Morgunblaðsins, hæddist að útliti hennar.
„Mér fannst Nanna Rögnvaldar ekki smekkleg kona en svo virðist hún hafa farið á Ozempic og hún er bara orðin eins og færeyskt skerpikjöt. Hver vill borða mat frá svona konu? Mynduð þið kaupa matreiðslubækur frá henni? Ég bara missi matarlystina við tilhugsunina,“ sagði Stefán Einar um Nönnu.
„Nanna Rögnvaldardóttir, rithöfundur og þýðandi, hefur síðustu áratugi sent frá sér aragrúa bóka sem eru bæði vandaðar og hafa notið óhemju vinsælda. Um þekkingu Nönnu á mat þarf ekki að orðlengja. Nóg er að horfa til þeirra frábæru bóka um matargerð og matarsögu sem hún hefur sent frá sér í gegnum tíðina. Síðustu ár hefur Nanna svo skrifað afbragðs skáldsögur fyrir börn og fullorðna sem sanna svo ekki verður um villst hvað hún er fjölhæfur höfundur. Í fyrra hlaut Nanna Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur fyrir fyrstu barnabók sína, Flóttinn á norðurhjarann, sem hlaut lofsamlega dóma. Á Borgarbókasafninu er að finna finna fjölda verka eftir Nönnu. Kíkið endilega í heimsókn og kynnið ykkur úrvalið!” segir í færslu safnsins um Nönnu.
Ekkert er minnst á Stefán Einar í færslunni en ólíklegt er að tilviljun ráði því að færsla safnsins hafi birst í gær.


Komment