
Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur ákveðið að fella niður dagsektir að upphæð nær fjórum milljónum króna á hendur fyrirtækinu Móglí ehf., að því gefnu að fyrirtækið ljúki hreinsun olíumengaðs jarðvegs á lóðum sínum við Strandgötu 59 og 61 á Eskifirði fyrir 15. nóvember næstkomandi. Þetta kemur fram í umfjöllun Austurfréttar.
Ákvörðunin var tekin á síðasta fundi stjórnar heilbrigðiseftirlitsins, eftir að Móglí hafði ítrekað vanrækt fyrirmæli eftirlitsins í tæpt eitt og hálft ár. Fyrirtækið sendi þó nýlega inn verkáætlun um hreinsun lóðanna, í kjölfar úttektar verkfræðistofunnar EFLU á umfangi mengunarinnar. Nágrannar hafa lengi kvartað yfir olíulykt og óhreinindum frá svæðinu.
Mengunin á rætur að rekja til leka úr tveimur gömlum húsageymum sem staðið hefur svo lengi að jarðvegur á lóðunum er orðinn mettaður af olíu. Lóðirnar standa nærri sjó og hafa yfirvöld haft áhyggjur af að olían gæti runnið út í hafið.
Dagsektir að upphæð 20 þúsund krónur á dag voru lagðar á fyrirtækið fyrir tæpu ári, þar til heildarskuldin nam nær fjórum milljónum króna. Ef hreinsun jarðvegs og förgun geymanna verður lokið innan frests fellur sú fjárhæð niður að fullu.
Heilbrigðiseftirlitið hyggst þó innheimta kostnað vegna úttektar og tillögugerðar EFLU. Verði ekki staðið við skiladag hreinsunar mun eftirlitið láta framkvæma verkið á kostnað Móglí ehf.

Komment