
Á morgun mun Héraðsdómur Reykjaness kveða upp dóm sinn í máli Margrétar Löf en hún er ákærð fyrir að hafa orðið föður sínum að bana. Þá er hún einnig ákærð fyrir að hafa reynt að gera slíkt hið sama við móður sína en atvikið átti sér stað í apríl á heimili foreldra hennar í Súlunesi í Garðabæ.
Í ákæru á hendur Margréti er hún sökuð um að hafa misþyrmt föður sínum og móður allt frá kl. 22:30 fimmtudagskvöldið 10. apríl og fram til kl. 6:39 um föstudagsmorguninn 11. apríl.
Réttarmeinafræðingar komu fyrir dóm og lýstu áverkum Hans Roland Löf, föður Margrétar, og sögðu þá það mikla og víðtæka að þeir hefðu líklegast valdið dauða hans. Áverkar á líkama hans voru sambærilegir þeim sem hljótast af því að lenda í alvarlegu bílslysi, að sögn sérfræðinga.
Hann var meðal annars með alvarlega höfuðáverka, fjölda rifbeinsbrota beggja vegna sem mynduðu svokallað brotakerfi í neðri hluta brjóstkassa, auk innvortis blæðinga.
Lögmaður Margrétar er hinn umdeildi Sigurður G. Guðjónsson en Karl Ingi Vilbergsson varahéraðssaksóknari sækir málið.

Komment