
Drukknir fíkniefnasmyglarar sem reyndu að smygla kókaíni að verðmæti 100 milljóna punda til Bretlands um borð í fiskibáti hafa verið fundnir sekir í breskum rétti en þeir voru gripnir glóðvolgir af landamæravörðum.
Um er að ræða fjóra menn sem voru í samskiptum við suður-ameríska eiturlyfjabaróna, sem notuðu staðsetningartæki og farsíma til að leiðbeina áhöfninni á skipinu Lily Lola hvert þeir ættu að sigla, þegar það var stöðvað undan norðurströnd Cornwall í september síðastliðnum.
Í réttarhöldunum var útskýrt hvernig rúmt tonn af hágæða kókaíni hafði verið skilið eftir í sjónum í 49 pokum, allir með staðsetningartæki, svo hægt væri að fylgjast með staðsetningu þeirra með GPS. Tveir mannanna, Michael Kelly og Jake Marchant, höfðu áður játað að hafa ætlað að smygla einu tonn af kókaíni, samkvæmt vitnisburði fyrir dómstólnum. En samverkamenn þeirra, Jon Paul Williams og Patrick Godfrey, voru í dag sakfelldir fyrir sama brot. Allir fjórir voru ákærðir fyrir samsæri um að sniðganga bann við innflutningi á fíkniefnum í flokki A eftir að skipið var stöðvað af landamæravörðunum.
Þeir mega allir búast við því að fá langan dóm fyrir smyglið.
Komment