
Fyrir tveimur vikum var tilkynnt um óvenjulega háan dúfnadauða í Vestmannaeyjum. Matvælastofnun tók sýni úr dúfunum eftir að tilkynning barst þeim frá Lögreglunni í Vestmannaeyjum.
Forstjóri MAST, Hrönn Ólína Jörundsdóttir, sagði í samtali við fréttastofu RÚV að rannsóknir hafa leitt í ljós að ekki sé um fuglaflensu að ræða. Þá gat MAST einnig útilokað Newcastle-veiki en það er bráðsmitandi veirusjúkdómur í fuglum sem hefur enn ekki greinst á Íslandi.
Fleiri rannsóknir verða nú framkvæmdar á fuglahræjunum til að útiloka aðra sjúkdóma, þar á meðal salmónellu. Einnig gæti komið til greina að eitrun, fæðuskortur eða náttúruleg atvik hafi ollið dauða dúfnanna.
„En það er mjög jákvætt að þetta er ekki fuglaflensa,“ sagði Hrönn í samtali við RÚV.
Komment