
Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens varar eindregið við spilafíkn í nýlegri Facebook-færslu þar sem hann lýsir henni sem „einu því sorglegasta sem nokkur manneskja getur komið sér í“. Hann segist hafa sungið yfir fjölmarga einstaklinga sem glímt hafa við slíka fíkn og kallar hana falda plágu í íslensku samfélagi. „Ég hef aldrei hitt hamingjusaman spilafíkil en ég hef sungið yfir æði mörgum.“
Í færslunni fjallar Bubbi um þungbær áhrif spilafíknar á fjölskyldur og aðstandendur. „Heimili verða gjaldþrota, fólk sviptir sig lífi, við þekkjum öll slíkar sögur,“ skrifar hann og segir byrðina sem veikindin leggja á nánustu aðstandendur oft meiri en gengur og gerist með aðrar fíknir.
Bubbi gagnrýnir jafnframt að veðmálafyrirtæki beini nú markaðssetningu sinni sérstaklega að ungu fólki og noti áhrifavalda til að auglýsa. „Þau selja áhrifavöldum þá mynd að það sé í lagi að auglýsa sorg og myrkur,“ segir hann og bendir á að sumir þeirra sem auglýsi veðmálasíður séu jafnvel sjálfir í bata frá annarri fíkn.
Bubbi bætir við: „Sá sem hefur séð sorg aðstandenda í jarðarför þar sem er verið að kveðja unga manneskju sem hefur svipt sig lífi vegna spilafíknar ýtir ekki þeim sorgarvagni svo glatt frá sér.“
Hann segir það „grátlega sorglegt“ að sjá spilafíknina „klæða sig í vesti og brók“ og blekkja fólk til að halda að hægt sé að vinna húsið, en minnir á að „lögmál leiksins er að húsið vinnur alltaf“.

Komment