
Ríkisstjórar úr Repúblikanaflokknum hafa sett þjóðvarðliðið í viðbragðsstöðu í dag vegna víðtækra „No Kings“-mótmæla, gegn ríkisstjórn og stefnu Donalds Trump forseta, sem boðuð hafa verið á fleiri en 2.500 stöðum í Bandaríkjuum.
Bandamenn Trump hafa sakað mótmælendur um tengsl við róttæka vinstrihreyfinguna Antifa, sem ríkisstjórn Trumps skilgreinir sem hryðjuverkamenn. Stjórn Trumps hótar að elta uppi þau sem tengjast Antifa eða hafa fjármagnað þau með nokkrum hætti, en bent hefur verið á að ekki sé um að ræða nein skipulögð samtök.
Í Texas og Virginíu hafa ríkisstjórar skipað þjóðvarðlið ríkjanna í viðbragð, en óljóst er hversu sýnileg hernaðarviðvera verður við mótmælin.
Að sögn skipuleggjenda tóku yfir fimm milljónir manna þátt í síðustu „No Kings“-mótmælunum í júní til að mótmæla pólitískri stefnu Trump. Skipuleggjendur segja nýju mótmælunum ætlað að ögra einræðistilburðum Trump. „Forsetinn heldur að hann hafi alræðisvald,“ segir á vef þeirra. „En í Bandaríkjunum höfum við ekki konunga og við látum ekki undan óreiðu, spillingu og grimmd.“
Sumir repúblikanar hafa nefnt mótmælin „Hata Ameríku“-mótmæli. „Við verðum að setja þjóðvarðliðið í gang,“ sagði Roger Marshall öldungadeildarþingmaður frá Kansas fyrir mótmælin, að því er CNN greinir frá. „Vonandi verða þau friðsamleg. Ég efast um það.“
Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, virkaði á fimmtudag þjóðvarðlið ríkisins fyrir mótmæli sem boðuð eru í Austin, höfuðborg ríkisins. Hann sagði að hermennirnir yrðu kallaðir út vegna „skipulagðra Antifa-tengdra mótmæla“.
Demókratar fordæmdu ákvörðunina, þar á meðal Gene Wu, helsti leiðtogi demókrata í ríkinu, sem sagði: „Að senda vopnaða hermenn til að bæla niður friðsamleg mótmæli er það sem konungar og einræðisherrar gera - og Greg Abbott var að sanna að hann er einn þeirra..“
Glenn Youngkin, ríkisstjóri Virginíu, fyrirskipaði einnig að þjóðvarðlið ríkisins yrði virkjað.
Komment