
Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram, en samkvæmt nýrri stöðuskýrslu Veðurstofu Íslands frá Þorláksmessu er hún nú fremur hæg en stöðug. Á meðan kvika bætist við kerfið er áfram gert ráð fyrir að meira kvikuhlaup muni koma fram og annað eldgos, en Veðurstofan tekur fram að erfitt sé að spá fyrir um tímasetningu næsta atburðar þegar söfnunin gengur svona hægt. Víkurfréttir sagði frá málinu.
Líkön sýna að það kvikumagn sem þarf til að koma af stað gosi eða kvikuhlaupi hefur aukist frá mars 2024. Síðan þá hafa 17–23 milljónir rúmmetra af kviku safnast fyrir á milli gosa. Frá síðasta gosi í júlí hafa rúmlega 18 milljónir rúmmetra bæst við í kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi.
Jarðskjálftavirkni hefur jafnframt verið lítil undanfarna mánuði, að sögn Veðurstofunnar.
Óbreytt hættumat gildir áfram til 6. janúar 2026, nema eitthvað breytist í virkni. Veðurstofan fylgist grannt með framvindunni og mun uppfæra matið ef þurfa þykir.

Komment