Enn hefur ekki verið skipað í embætti lögreglustjóra á Austurlandi, þrátt fyrir að staðan hafi verið laus í meira en hálft ár. Skipan núverandi sýslumanns hefur aftur á móti verið framlengd um eitt ár. Kemur þetta fram í umfjöllun Austurfréttar.
Samkvæmt svörum dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Austurfréttar er unnið að skipun nýs lögreglustjóra, en niðurstöðu er að vænta „á næstunni.“ Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, tók tímabundið við embættinu 1. apríl síðastliðinn þegar Margrét María Sigurðardóttir, sem áður gegndi starfinu, var skipuð forstjóri Mannréttindastofnunar.
Starfið var auglýst í júní og bárust þrjár umsóknir, en síðan hefur lítið verið látið uppi um framhald málsins.
Skipan Svavars Pálssonar framlengd til 2026
Svavar Pálsson, sýslumaður á Norðurlandi eystra, var skipaður sýslumaður á Austurlandi í fyrra til eins árs. Skipan hans hefur nú verið framlengd frá 1. nóvember 2025 til 31. október 2026.
Á sama tíma vinnur ráðherra að því að sameina öll sýslumannsembætti landsins í eitt. Upphaflega átti hið sameinaða embætti að taka til starfa 1. janúar 2026, en þar sem málið dagaði upp á Alþingi í vor hefur framkvæmdinni verið frestað um ár – til 1. janúar 2027.
Undirbúningur fyrir breytingar hafinn
Fyrr í mánuðinum hélt starfsfólk sýslumannsembættanna sameiginlegan vinnudag á Akureyri þar sem um 200 manns komu saman. Áhersla var lögð á framtíðarsýn, samvinnu og forystu í aðdraganda væntanlegrar sameiningar.
Á vinnustofum var unnið að stefnumótun og mótuð forgangsmarkmið næsta árs undir leiðarstefunum framsækni, þekking og samvinna.
Í tilkynningu segir að lögð hafi verið sérstök áhersla á áframhaldandi stafræna þróun, samræmingu verklags milli embætta, aukningu starfsánægju og að allar breytingar byggist á gagnsæi og trausti.
Að vinnudeginum loknum var haldinn aðalfundur Sýslumannafélags Íslands þar sem Svavar Pálsson var endurkjörinn formaður.
Komment