1
Innlent

Bíll brennur við Nesjavallaveg

2
Innlent

Varðturn settur upp við Hallgrímskirkju

3
Heimur

Kennari tekinn með kókaín í grunnskóla

4
Fólk

Hallgrímur fann óvænta ánægju í dánarbúi móður sinnar

5
Heimur

Kona stakk ljósmyndara í bakið

6
Pólitík

„Er svona fyrir okkur komið?“

7
Grein

Gunnar Smári finnur fyrir létti en uppgjöri er ólokið

8
Innlent

Nóttin í borginni: Ungmenni með ógnandi tilburði

9
Landið

Meiri gjaldtaka í Landmannalaugum

10
Innlent

Ók óvart í gegnum rúðu á skólanum

Til baka

„Er svona fyrir okkur komið?“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, bregst við fréttum af varðturnum gegn vasaþjófnaði með ákall um harðari landamæragæslu. En hvað myndi það þýða?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð GunnlaugssonFormaður Miðflokksins vill auka löggæslu, en bregst við fréttum af varðturni með ákalli um harðari landamæragæslu.
Mynd: Golli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telur að uppsetning lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á varðturnum í miðborg Reykjavíkur, sé staðfesting á stefnu flokks hans varðandi ferðafrelsi.

Eins og Mannlíf greindi frá fyrst fréttamiðla í gærmorgun hafa varðturnar verið settir upp við Hallgrímskirkju og neðarlega á Skólavörðustíg. Er það gert í kjölfar umkvartana um vasaþjófnað á helstu ferðamannastöðum.

Sigmundur nýtir tækifærið til að vekja máls á að snúa mætti við glæpamönnum við landamærin. „Er svona fyrir okkur komið?“ spyr hann í færslu á Facebook. „Í stað þess að taka á rót vandans er stöðugt leitað að nýjum viðbrögðum. Í stað þess að ná stjórn á landamærunum eru reistir eftirlitsturnar eins og úr vísindaskáldsögu.“

Varðturn Skólavörðustíg
Varðturn á SkólavörðustígLögregla hefur samið við einkafyrirtækið Vörn um uppsetningu varðturna á áberandi stöðum í miðborginni.
Mynd: Facebook

Vasaþjófar færi sig um set

Hann býst við að vasaþjófarnir færi sig um set. „Hið nýja vökula auga stórabróður er kynnt sem tímabundið úrræði, kunnuglegt. Það á að fæla vasaþjófa frá Hallgrímskirkju og Skólavörðustíg. Hvað gerist svo ef það virkar? Gefast þjófarnir bara upp og halda heim með fyrstu flugvél? Eða færa þeir sig einfaldlega á fleiri staði?“

Stefna Miðflokksins er að efla löggæslu, samhliða því að herða landamæravörslu. Í stefnu flokksins fyrir síðustu kosningar sagði að „efla þyrfti landamæraeftirlit“ og „stórefla lögregluna í landinu og bregðast við bráðavanda með auknu fjármagni til að takast á við þessa ógn og vegna fjölmargra nýrra áskorana.“

Ekki liggur ljóst fyrir hvaða afleiðingar harðara landamæraeftirlit hefði fyrir almenna Íslendinga eða hvernig það yrði framkvæmt, eftir vilja Sigmundar og Miðflokksins.

Vísar til þess að Úlfar hafi verið „rekinn“

Sigmundur Davíð tekur undir með Úlfari Lúðvíkssyni, fráfarandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, sem haft hafði uppi stór orð á föstudag um landamæragæslu og ábyrgð tiltekinna aðila eftir að ákveðið var að auglýsa stöðu lögreglustjóra.

„Ég er ekki að gagnrýna lögregluna fyrir þetta, hún er sett í það hlutverk að bregðast við án þess að mega gera fyrirbyggjandi ráðstafanir. Ef menn einbeita sér að því að snúa glæpamönnum við á landamærunum eiga þeir á hættu að verða reknir,“ segir Sigmundur.

Úlfar hefur varað við ferðafrelsi Schengen svæðisins, eins og Sigmundur og Miðflokkurinn. Hann hefur lýst því yfir Schengen-samstarfið gangi gegn öryggishagsmunum Íslands og vill að ráðuneytisstjórinn í dómsmálaráðuneytinu, sem og ríkislögreglustjóri, „taki pokann sinn“ fyrir að hleypa til landsins einstaklingum sem séu „óæskilegir í íslenskt samfélag“. Skilgreining á því krefst hins vegar eftirlits og flokkunar á fólki.

Vilja endurskoða ferðafrelsi

Ísland er aðili að Schengen-samkomulaginu um vegabréfalaus ferðalög milli aðildarlanda, sem eru á Evrópska efnahagssvæðinu, fyrir utan Írland og Kýpur. Það tryggir einfaldari ferðalög milli landa. Þann 31. mars í fyrra bættust Rúmenía og Búlgara við Schengen-svæðið.

Schengen-samstarfið hefur frá upphafi snúið að því að deila einnig upplýsingum milli aðildarlanda um brotaferil og veru á átakasvæðum, svo eitthvað sé nefnt.

Í skýrslu dómsmálaráðuneytisins um kosti og galla Schengen-samstarfsins frá því í júní í fyrra var vísað til þess að einn helsti kosturinn væri „frjáls för fólks“.

„Afnám landamæraeftirlits leiðir óhjákvæmilega til aukinna og greiðari ferðalaga fólks innan svæðis auk bættrar ferðaupplifunar, einkum með því að ferðafólk þarf ekki að sæta bið á landamærastöð við komuna til viðkomandi ríkis. Frjáls för innan svæðis án landamæraeftirlits er því til þess fallin að efla ferðaþjónustu og önnur viðskipti auk þess að stuðla að menningarlegum fjölbreytileika,“ segir í skýrslunni.

Þá er vísað til hagræðingar á landamærum sem minnkar kostnað.

Lögreglusamvinna Schengen sé kostur

Að sama skapi er einn helsti kosturinn, samkvæmt skýrslunni, „alþjóðleg lögreglusamvinna“.

„Aðildarríki Schengen viðhafa umfangsmikla lögreglusamvinnu, einkum með rekstri og notkun Schengen-upplýsingakerfisins, SIS (e. Schengen information system). SIS er samræmt rafrænt upplýsingakerfi sem löggæsluyfirvöld allra Schengen-ríkjanna nota en í kerfið eru skráðar ákveðnar upplýsingar um einstaklinga og vörur. Einstaklingum sem koma á ytri landamæri Schengen-svæðisins er flett upp í kerfinu við persónubundið landamæraeftirlit og kerfið er notað til að miðla og skrá upplýsingar við eftirlit á innri landamærum,“ segir í skýrslunni. „Alþjóðleg lögreglusamvinna á grundvelli Schengen-samningsins er gríðarlega mikilvæg til að varðveita öryggi á svæðinu í heild en án hennar þyrftu einstök ríki að reiði sig á milliríkjasamninga við einstök ríki um samvinnu á sviði löggæslu án nokkurra miðlægra landamærakerfa eða gagnagrunna á borð við SIS.“

Mat skýrsluhöfunda dómsmálaráðuneytisins er hins vegar að Ísland hefði átt í verulegum erfiðleikum með landamæravörslu án aðildar að Schengen. Þannig sé „ljóst að íslensk stjórnvöld hefðu staðið frammi fyrir gríðarstórum áskorunum við framkvæmd landamæraeftirlits á innri landamærum ef Ísland væri ekki aðili að Schengen-samstarfinu.“

Gallar við Schengen

Afnám persónubundins landamæraeftirlits hefur þó í för með sér „aukna öryggisáhættu fyrir einstök aðildarríki sem og svæðið í heild sinni, m.a. vegna óreglulegra fólksflutninga og alþjóðlegrar skipulagðrar brotastarfsemi,“ samkvæmt skýrslunni.

Schengen-samstarfið felur í sér einhverja takmörkun á sjálfsákvörðunarrétti aðildarríkjanna. Hins vegar kemur það ekki í veg fyrir að tekið sé upp eftirlit við innri landamærin, það er að segja landamæri milli Schengen-ríkjanna sjálfra. Mörg lönd hafa þannig tekið upp aukið eftirlit á sínum landamærum síðustu mánuði, til að mynda Þýskaland, Noregur, Austurríki, Ítalía, Slóvenía, Holland og Frakkland.

Þannig hafi Danmörk og Svíþjóð „ talið sig knúin til að taka upp persónubundið eftirlit á innri landamærum sínum um langt skeið til að bregðast við öryggisógnum“.

Þá er tiltekið að fólksflutningar geti aukið álag á félagsþjónustu aðildarríkja og kallað á skýra stefnumótun um innviði og aðgengi að opinberri þjónustu.

Hert eftirlit framundan

Framundan er að tekið verði upp komu- og brottfarareftirlit á ytri landamærum Schengen, og þar með Íslands.

Á næstunni er áformað að svokallað „biometric passport check“ verði tekið upp við ytri landamærin í skrefum. Það hefur í för með sér að fingraför og andlitsmyndir verða teknar við komu og brottför af Schengen-svæðinu. Beðið er samþykkis Evrópuráðsins og Evrópuþingsins.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur síðan lagt fram frumvarp á Alþingi, sem vegur upp gagnrýni Úlfars Lúðvíkssonar að nokkru leyti. Frumvarpið varðar að skylda öll flugfélög til að leggja fram farþegalista við komu á Keflavíkurflugvöll, sem tíu flugfélög sinna ekki. Þorbjörg segist í samtali við Ríkisútvarpið í dag undrast að Miðflokkurinn styðji ekki frumvarpið og skrifi ekki undir nefndarálit um það.

„Það kemst ekki áfram á dagskrá þingsins vegna þess málþófs sem er stundað í þinginu, ekki síst af hálfu Sjálfstæðisflokks og Miðflokks,“ segir Þorbjörg Sigríður.

Kjósa
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Komment


Hallgrímur Helgason
Fólk

Hallgrímur fann óvænta ánægju í dánarbúi móður sinnar

Gunnar Smári Egilsson
Grein

Gunnar Smári finnur fyrir létti en uppgjöri er ólokið

Landmannalaugar
Landið

Meiri gjaldtaka í Landmannalaugum

Hafnarfjörður
Innlent

Ók óvart í gegnum rúðu á skólanum

Eldur Nesjavallavegi
Innlent

Bíll brennur við Nesjavallaveg

Lee Michael Granier
Heimur

Kennari tekinn með kókaín í grunnskóla

konaNY
Myndband
Heimur

Kona stakk ljósmyndara í bakið

Loka auglýsingu