
Hinn þrefaldi Eurovision-sigurvegari, Johnny Logan, segir að Ísrael eigi ekki að fá að taka þátt í Eurovision.
Í viðtali við þáttinn This Week á írsku ríkisstöðinni RTÉ sagðist söngvarinn og lagahöfundurinn „stoltur“ af ákvörðun RTÉ um að taka ekki þátt í Eurovision-söngvakeppninni á næsta ári.
„Mér finnst í þessu tilviki að RTÉ hafi tekið rétta ákvörðun. Ég tel ekki að Ísrael eigi að fá að fela sig undir regnhlíf Eurovision og láta líta út fyrir að allt sé í lagi, allt eins og venjulega, því það er það ekki. Ég held að flestir Írar séu sammála því.“
Logan fagnar því að ákvörðunin um að draga Írland úr keppninni hafi verið tekin áður en lag og flytjandi voru valin.
Hann sagði Eurovision verða pólitískt þegar nauðsyn krefur og nefndi sem dæmi þegar Rússlandi var vikið úr keppninni eftir innrás þess í Úkraínu.
„Þegar einhver eins og Donald Trump lýsir Gaza sem fasteignum er það skelfilegt. Það verður að koma að punkti þar sem einhver rödd heyrist. Þetta er ekki í lagi. Þeir gerðu þetta við Rússa í Eurovision … þeir segja að keppnin sé ópólitísk, en í raun verður hún pólitísk þegar þess er þörf. Eurovision hefur verið mér mjög gott, en mér er mjög mikið í mun um þetta.“
Logan sagði að Evrópska sjónvarpssambandið, EBU, hefði ekki átt að leyfa Ísrael að taka þátt í keppninni í ár.
„Ég tel að EBU hefði átt að taka ákvörðun um Ísrael, að fjarlægja það úr keppninni, og þannig taka ákvörðunina úr höndum einstakra ríkja. En svona er þetta núna. Ég held að það sem Írland og RTÉ hafa gert sé akkurat það rétta. Ég styð þetta 100%.“
Bætti hann við: „Og þetta snýst ekki um ísraelsku þjóðina, heldur stjórnvöld og þá sem hafa tekið þessar ákvarðanir.“
Hann bætti við að þátttaka í Eurovision væri tiltölulega lítilvæg í stóra samhenginu, en að með því að leyfa Ísrael að taka þátt „sé því gefinn ákveðinn trúverðugleiki gagnvart þeirri hegðun sem það hefur sýnt“.
Að lokum sagði Logan að önnur ríki ættu að fylgja fordæmi Írlands og sniðganga keppnina í ár.
Logan er ekki eina Eurovision-stjarnan sem nýlega hefur stigið fram og mótmælt þátttöku Ísraels í keppninni en Páll Óskar Hjálmtýsson mótmælti harðlega ákvörðun EBU um að leyfa þátttöku Ísraels og hvatti RÚV til þess að sniðganga keppnina í ár. Þá hafa meðal annars fyrrum Eurovision-keppendurnir Mae Muller, Bianca Nicolas, Charlie McGettigan og Salvador Sobral, mótmælt þátttöku Ísraels í keppninni.
Björk Guðmundsdóttir bættist svo í hópinn á dögunum og hvatti RÚV til að sniðganga keppnina en stjórn RÚV mun funda á miðvikudaginn um málið og taka ákvörðun.

Komment