
Faðir Madeleine McCann, Gerry McCann, brast í grát í morgun við réttarhöld í yfir konu sem ákærð er fyrir að hafa eltihrellt fjölskyldu hans og lýsti reynslunni sem „hræðilegri“. Konan fullyrðir að hún sé í raun dóttir þeirra, Madeleine sem hvarf árið 2007 þar sem fjölskyldan dvaldi í sumarleyfisbústað í Portúgal.
Gerry bar vitni, líkt og eiginkona hans, Kate, fyrr um daginn, en þau sátu hvort á sínum stað, aðskilin frá hinni ákærðu með fortjaldi. Hann sagði að Kate hefði fengið „fjölda“ símtala og skilaboða sem hefðu gert hana „mjög stressaða og hrædda“.
Hann kvaðst einnig hafa séð ljósmynd sem lögregla sýndi þeim af konunnu, Julia Wandelt, en hann var „fullviss“ um að hún væri alls ekki Madeleine, sem hvarf þriggja ára gömul í fjölskyldufríi í Praia da Luz í Portúgal árið 2007. Sú niðurstaða samræmdist vitnisburði Kate fyrr um daginn.
Fyrr um daginn sagði Kate fyrir dómnum í Leicester Crown Court að það sem hún þráði mest í heiminum væri „að fá dóttur sína aftur“, og að heyra hana „kalla á mig, ‘mamma’“. Hún lýsti því að hún hefði orðið bæði hrædd og miður sín þegar Wandelt mætti fyrirvaralaust heim til þeirra og sagðist vera Madeleine. Wandelt hafi verið í fylgd annarrar konu og neitað að fara, og bætti Kate við „Þær héldu áfram að berja á hurðinni.“
Wandelt er ákærð fyrir að hafa sent bréf, símtöl, raddskilaboð og WhatsApp-skilaboð til Kate og Gerry McCann, auk þess að hafa sent tvíburunum Amelie og Sean McCann, yngri systkinum Madeleine, skilaboð á Instagram þar sem hún kvaðst vera hin týnda stúlka.
Hún er á sakamannabekknum ásamt Karen Spragg, sem er ákærð fyrir eitt eltihrellisbrot sem olli verulegri vanlíðan og ótta. Spragg er sögð hafa hringt í hjónin, sent þeim bréf og mætt heim til þeirra.
Komment