
Farþegi í annarri tveggja bifreiða sem skullu saman nærri Stafdal, á leið niður í Seyðisfjörð af Fjarðarheiði í dag, hefur látist af völdum meiðsla sinna, samkvæmt Austurfrétt.
Slysið var tilkynnt klukkan 14:00. Átta manns voru í bílunum tveimur og voru allir fluttir til aðhlynningar á Egilsstöðum. Í fyrstu tilkynningu lögreglu kom fram að einn þeirra væri alvarlega slasaður, en nú hefur verið staðfest að viðkomandi lést.
Vegurinn var lokaður í um það bil hálfan annan klukkutíma eftir slysið. Síðar var umferð hleypt fram með stýringu fram undir kvöld en er nú með eðlilegum hætti.
Lögregla og Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Snjóþekja og kóf voru á veginum þegar áreksturinn átti sér stað.

Komment