
Þrjátíu og eins árs tveggja barna móðir frá Þýskalandi kallar eftir tafarlausum úrbótum á öryggisstöðlum í ferðamannaaðstöðu á Kanaríeyjunni Fuerteventura, eftir að hún varð fyrir grófri líkamsárás í hótelherbergi sínu í síðasta mánuði.
Sofiia Pshepyrovska dvaldi á SBH Monica Beach Resort í Costa Calma aðfaranótt 24. júní 2025 þegar ókunnugur maður braust inn í herbergi hennar á jarðhæð í gegnum hálfopna svalahurð og réðst harkalega á hana þar sem hún svaf.
Gróf líkamsárás inni í hótelherbergi
Samkvæmt frásögn Pshepyrovska, sem hafði aðeins verið í rúma fjóra klukkutíma á hótelinu, vaknaði hún ringluð og blóðug eftir að hafa verið slegin ítrekað í höfuðið með sljóu áhaldi. Við árásina skarst hún djúpt á fingri og bein brotnaði, úlnliðir hennar slösuðust og nær allur efri hluti líkamans varð marinn.
Hún var flutt í gjörgæslu þar sem læknar lokuðu dýpstu höfuðsárunum með 11 málmklemmum, saumuðu fingurinn og settu handlegg hennar í gifs.
Pshepyrovska sagði við Canarian Weekly að hún hefði hvorki drukkið áfengi né yfirgefið drykk sinn óvarinn og hefði ekki átt nein samskipti við gesti eða starfsfólk hótelsins áður en árásin átti sér stað. Myndbandsupptökur úr öryggismyndavél sýna að maður hafi verið á ferli nálægt herbergi hennar á sama tíma og árásin átti sér stað. Lögregla rannsakar málið.
Viðbrögð hótelsins og ferðaskrifstofunnar valda reiði
Það sem hefur vakið enn frekari reiði eru viðbrögð, eða skortur á þeim, frá hótelinu og ferðaskrifstofunni TUI.
Samkvæmt Pshepyrovsku neitaði starfsfólk hótelsins að kalla til sjúkrabíl, hafði ekki aðgang að skyndihjálparbúnaði og enginn á vakt vissi hvernig ætti að aðstoða hana.
Þá gaf móttökustarfmaður í skyn fyrir framan lögreglumenn að hún gæti verið að ímynda sér árásina, með orðunum: „Kannski varstu bara að ímynda þér þetta.“
Að sögn Psepyrovsku barst engin afsökunarbeiðni frá hótelstjórninni og þá neitaði ferðaþjónustufyrirtækið TIU að breyta heimfluginu henanar þrátt fyrir upplýsingar um alvarleika árásarinna og áverka hennar.
Aðrir gestir veittu einu raunverulega hjálpina
Pshepyrovska segir að það hafi verið aðrir gestir á hótelinu sem hafi veitt sér einu raunverulega hjálpina þetta kvöld. Þeir hringdu í lögreglu, kröfðust þess að sjúkrabíll yrði sendur, og söfnuðu saman síma hennar, skjölum og fötum, þar á meðal nærfötum, svo hún þyrfti ekki að fara fatalaus af spítalanum þar sem öll föt hennar voru gegnsósa af blóði.
Áframhaldandi afleiðingar og von um breytingar
Pshepyrovska er nú aftur í Þýskalandi að jafna sig eftir heilahristing og mögulega þarf hún að gangast undir aðgerð á hendi. Hún segir að hún hafi ákveðið að stíga fram opinberlega til að tryggja að reynsla hennar fari ekki fram hjá fólki.
Í kjölfar árásarinnar fór hún að skoða umsagnir um hótelið á netinu og fann þá nokkur önnur neikvæð dæmi og lýsingar sem vekja upp alvarlegar spurningar um öryggismál.
Hún vonast til að saga hennar verði aðvörun til annarra ferðalanga og hvatning til yfirvalda og ferðaskrifstofa um að taka öryggi og umönnun gesta alvarlega.
Lögregla á Fuerteventura heldur áfram rannsókn á málinu.
Komment