Myndband sem birtist á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar, sýnir ferðamenn virða að vettugi lokað hlið að Reynisfjöru en fjörunni var lokað í morgun vegna hættustigs.
Sveinn Valtýr Sveinsson, leiðsögumaður birti eftirfarandi myndskeið þar sem sjá má fjölda ferðamenn í Reynisfjöru, þrátt fyrir að hliðið að svæðinu sé lokað og hæsta hættustig sé á.
Mannlíf heyrði í Sveini Valtý og spurði hvort verðir hafi verið á svæðinu en hann sagði að landeigandi hafi verið á ströndinni að reyna að reka fólk þaðan. Það hafi hann einnig reynt, án árangurs.
„Jú landeigandi var á útopnu þarna niðurfrá en sá hann ekki fyrr en ég var á leið til baka. Ég reyndi að stöðva fólk sem var að fara framhjá hliðinu en á mig var ekki hlustað.“
Sveinn Valtýr er leiðsögumaður og var á svæðinu með 16 manna hóp en hann sagðist hafa farið með til að passa upp á hópinn sinn.
„Fór með til að tryggja að mitt fólk færi sér ekki að voða. Þarna voru nokkrir gædar að störfum, sumir að reyna að stöðva fólk, aðrir bara að passa sitt fólk en ekkert var á þá hlustað heldur.“
Hér má sjá myndskeiðið:
Komment