
Þýskir saksóknarar greindu frá því fyrr í dag að þeir hefðu gefið út ákærur á hendur fimm fyrrverandi meðlimum loftslagsaðgerðahóps sem nefnist Síðasta kynslóðin, þar á meðal fyrir „stofnun glæpasamtaka“.
Meðlimir Síðustu kynslóðarinnar sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðust ætla að andmæla ákærunum og kölluðu þær „árás á borgaralegt samfélagsstarf sem hornstein lýðræðisins“.
Síðasta kynslóðin var stofnuð árið 2021 og hefur í nokkur ár staðið fyrir áberandi mótmælum í Þýskalandi til að krefjast tafarlausra aðgerða gegn loftslagsbreytingum.
Hópurinn hefur meðal annars kastað kartöflumauki á glerið sem verndar málverk eftir Monet og ítrekað límt sig við umferðarmannvirki.
Meðlimir hópsins hafa stöðvað flugumferð í nokkur skipti á flugvöllum með því að ryðjast inn á þá og líma sig við flugbrautirnar.
Hreyfingin tilkynnti í febrúar að hún væri að endurskipuleggja sig í tvo nýja hópa sem einbeita sér að mismunandi loftslags- og umhverfismálum. Nokkrir meðlimir Síðustu kynslóðarinnar hafa áður sætt refsiverðri ákæru fyrir brot eins og eignaspjöll og fara inn á einkalóðir án leyfis.
Í maí á síðasta ári sögðu saksóknarar í Brandenburg-ríki að þeir hefðu ákært fimm meðlimi hópsins fyrir „stofnun glæpasamtaka“ í tengslum við mótmæli við tvær olíuhreinsistöðvar, flugvöllinn í Berlín og Barberini-safnið í Potsdam.
Komment