
Fimm ungir menn hafa nú verið sakfelldir í máli fyrir alvarlega líkamsárás en þeir voru allir meðlimir í tálbeituhópi í Svíþjóð. Einn þeirra var einnig sakfelldur fyrir barnaklám.
Í febrúar voru fimmmenningarnir handteknir grunaðir um líkamsárás og að hafa afhjúpað mann sem barnaníðing í Örnsköldsvik í Norður-Svíþjóð.
Aðeins nokkrum dögum áður höfðu þeir sótt um að ganga til liðs við hinn ofbeldisfulla tálbeituhóp „Pedo Hunting Sweden“ sem á íslensku gæti útleggst sem Barnaníðingssveiðar í Svíþjóð.
Við rannsókn málsins komu þó upp grunsemdir gagnvart einum árásarmannanna. Hann var grunaður um að hafa tekið upp myndbönd af nokkrum stúlkum í sturtuklefa í skóla þar sem hann starfaði.
„Það var augljóst að það hafði verið myndað í leyfisleysi. Á myndböndunum sáust ungar stúlkur, yngri en 15 ára,“ segir lögreglumaðurinn Robin Govik sem vann að rannsókninni.
Upptökurnar reyndust hafa verið teknar sex mánuðum eftir að hann sótti um að ganga í Pedo Hunting Sweden.
Nú hefur hann verið sakfelldur fyrir nokkur brot tengd líkamsárásum sem og fyrir barnaklám og ósiðsama ljósmyndun. Hann var dæmdur í þrjú ár og þrjá mánuði í fangelsi.
Allir sakfelldir
Málið hófst í lok maí á síðasta ári þegar maður var beittur ofbeldi á flugstöð í Örnsköldsvik.
Gerendurnir, sem vonuðust til að verða teknir inn í „Pedo Hunting Sweden“, tóku árásina upp og opinberuðu manninn sem barnaníðing á samfélagsmiðlum.
Þegar þeir voru handteknir nokkrum mánuðum síðar kom í ljós að þetta voru fimm ungir menn úr sama vinahópi. Samkvæmt lögreglu komu nokkrir þeirra úr ofbeldisumhverfi.
„Þeir hafa tengsl við ofbeldismenningu á meðal stuðningsmannahópa og hafa tekið þátt í skipulögðum slagsmálum,“ segir í rannsóknargögnum.
Fjórir sakborninganna voru nú dæmdir fyrir alvarlega líkamsárás og hljóta þeir fangelsisrefsingar á bilinu eitt ár til rúmlega tvö ár. Sá yngsti, 17 ára drengur, var sakfelldur fyrir að hafa afhjúpað manninn á samfélagsmiðlum og verður látinn taka út refsingu á unglingaheimili.

Komment