
Framkvæmdarstjórn Ríkisútvarpsins ákvað á fundi í dag að draga Ísland úr Eurovision á næsta ári, vegna þátttöku Ísraels í keppninni.
Samstöðufundur var haldinn fyrir utan Ríkisútvarpið í Efstaleitinu klukkan hálf þrjú í dag en klukkan 15:00 hófst fundu framkvæmdarstjórnar RÚV, þar sem ákvörðun var tekin um það hvort Ísland dragi sig úr Eurovision á næsta ári, vegna þátttöku Ísraels í keppninni, eða ekki.
Nokkrir tugir mættu fyrir utan Efstaleiti 1 en fólk hélt á skiltum og fána Palestínu en meðal þeirra sem þar mættu var Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður en hann hélt ræðu á fundinum þar sem hann segist vona að þetta verði góður dagur.
Þá segist hann vilja að sérstök söngvakeppni verði haldin hér á landi í stað Eurovision. „Sýnum heiminum að við erum ekki hræsnarar sem látum banna sér að veifa fánum hinna smánuðu og kúguðu,“ sagði Páll Óskar meðal annars. „Engan hvítþvott fyrir stríðsglæpamenn,“ hrópaði hópurinn og sló á trommur en fundurinn fór annars friðsamlega fram.
Eins og áður segir komst framkvæmdarstjórn RÚV, undir forystu Stefáns Jóns Hafstein að þeirri niðurstöðu að Ísland sniðgangi Eurov,ision á næsta ári, þar sem Ísrael hefur nú fengið grænt ljós frá EBU um þátttöku, þrátt fyrir ásakanir um þjóðarmorð gegn Palestínumönnum.
Ísland er því komið í hóp fjögurra annarra Evrópuríkja sem ætla sér að sniðganga keppnina vegna þátttöku Ísraels en Holland, Slóvenía, Spánn og og Írland hafa öll tilkynnt sniðgöngu sína.
Hér má lesa yfirlýsingu framkvæmdarstjórnarinnar:
Ríkisútvarpið hefur ákveðið að taka ekki þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Vínarborg í Austurríki á næsta ári. Þátttaka ísraelska ríkissjónvarpsins, KAN, í keppninni hefur að undanförnu valdið óeiningu, bæði á meðal aðildarstöðva Samtaka evrópskra útvarpsstöðva, EBU, og almennings. Þátttaka KAN var tekin til ítarlegrar umræðu á fundum EBU fyrr á þessu ári, fyrst í London í sumar og í Genf í síðustu viku. Á fundinum í Genf samþykkti mikill meirihluti aðildarstöðva EBU að ýmsar breytingar sem gerðar hafa verið á reglum og framkvæmd keppninnar væru fullnægjandi og því kom ekki til atkvæðagreiðslu um þátttöku KAN í keppninni.
Útvarpsstjóri gerði grein fyrir því á fundinum í Genf að þrátt fyrir að breytingarnar kæmu til móts við margar af þeim athugasemdum sem fulltrúar RÚV hefðu gert á ýmsum stigum EBU-samstarfsins síðustu ár væru enn efasemdir að mati RÚV um að þær dygðu til. Ítrekað hefði komið fram að hagsmunaaðilar hér á landi, til dæmis samtök listamanna, og íslenskur almenningur væri andvígur þátttöku í keppninni. Þá hefði stjórn RÚV óskað eftir því við EBU að KAN yrði vikið úr keppninni með hliðsjón af fordæmum. Málið væri flókið úrlausnar og hefði nú þegar skaðað orðspor keppninnar og EBU. Mikilvægt væri að finna lausn fyrir alla hlutaðeigandi.
Ljóst er miðað við opinbera umræðu hér á landi og viðbrögð við ákvörðun EBU sem tekin var í síðustu viku að hvorki mun ríkja gleði né friður um þátttöku RÚV í Eurovision. Það er því niðurstaða RÚV að tilkynna EBU um það í dag að RÚV taki ekki þátt í Eurovision á næsta ári. Söngvakeppnin og Eurovision hafa ávallt haft það markmið að sameina íslensku þjóðina en nú er ljóst að því markmiði verður ekki náð og á þeim dagskrárlegu forsendum er þessi ákvörðun tekin. Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvort haldin verður söngvakeppni á vegum RÚV á næsta ári. Verið er að meta fyrirliggjandi kosti í stöðunni og verður ákvörðun um það kynnt þegar hún liggur fyrir.

Komment