
Þrjár konur og einn karlmaður voru flutt á sjúkrahús eftir að eldur kom upp í íbúðarhúsnæði í gærmorgun í Los Cristianos. Ekkert hefur verið sagt um þjóðerni fólksins sem lenti í eldsvoðanum.
Samkvæmt fjölmiðlum ytra blossaði upp eldur í húsinu fyrir klukkan fimm að morgni til og er talið að bilaður örbylgjuofn hafi orðið til þess að kviknaði í. Bjarga þurfti íbúum af þaki hússins en eldurinn hafði gert stiga þess ónothæfa og tók það slökkviliðið fimm tíma að slökkva eldinn og reykræsta.
Ekki er talið að fólkið hafi hlotið varanlegan skaða þrátt fyrir að hafa þurft að leita læknisaðstoðar. Gefið hefur verið upp að karlmaðurinn og tvær konur hafi farið á sjúkrahús vegna reykeitrunar.
Sjö slökkviliðsbílar voru sendir á vettvang til að slökkva eldinn, sem kom upp á efstu hæð hússins.

Komment