
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum hefur verið tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna en þau eru veitt árlega fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Sem fyrr verða verðlaun veitt í fjórum flokkum; fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur, framúrskarandi kennslu, þróunarverkefni og iðn- eða verkmenntun.
Markmið verðlaunanna er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi og auka veg menntaumbótastarfs.
Allar tilnefningar
Skólastarf eða menntaumbætur
Leikskólinn Iðavöllur á Akureyri fyrir fjölþætt og markvisst þróunarstarf þar sem ríkir lausnamiðað viðhorf og stöðug viðleitni til umbóta. Skólanum er lýst sem lifandi og fjölmenningarlegu lærdómssamfélagi sem eflir réttlætisvitund og virkni nemenda.
Víkurskóli í Reykjavík fyrir skapandi þróunarstarf með áherslu á listir og nýsköpun. Skólinn leggur sérstaka áherslu á samþættingu námsgreina og teymiskennslu, og vinna nemendur ár hvert að fjölmörgum heildstæðum og þverfaglegum viðfangsefnum.
Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar fyrir gróskumikið tónlistarstarf m.a. í samstarfi við listafólk á ólíkum sviðum. Hljómsveitin hefur árum saman staðið að metnaðarfullu tónlistarstarfi sem hefur skilað einstökum árangri.
Kennari
Gunnar Ásgeir Sigurjónsson framhaldsskólakennari á pípulagningabraut Tækniskólans – fyrir einstaka alúð við nemendur og fagmennsku í kennslu.
Hjördís Óladóttir grunnskólakennari við Hrafnagilsskóla – fyrir skapandi og fjölbreytta kennsluhætti og hæfileika til að skapa frjótt, fallegt og örvandi námsumhverfi.
Ingibjörg Jónasdóttir leikskólakennari við leikskólann Rauðhól í Reykjavík – fyrir farsælt brautryðjendastarf við að efla áhuga barna á bókum og lestri.
Laufey Einarsdóttir grunnskólakennari í Sæmundarskóla – fyrir faglega og árangursríka stærðfræðikennslu með Boðorðin okkar í stærðfræði að leiðarljósi.
Örvar Rafn Hlíðdal íþróttakennari við Flóaskóla – fyrir framúrskarandi íþróttakennslu og eftirtektarverðan árangur í starfi. Skólinn hefur meðal annars unnið Skólahreysti tvisvar sinnum þrátt fyrir fámennan nemendahóp.
Þróunarverkefni
Gullin í grenndinni. Samstarfsverkefni leikskólans Álfheima og Vallaskóla á Selfossi um nám úti í náttúrunni sem hefur verið í stöðugri þróun og er nú fastur liður í starfi beggja skólanna.
Íslenskubrú Breiðholts. Samstarfsverkefni allra grunnskóla í Breiðholti sem miðar að því að efla kennslu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku með markvissu samstarfi kennara skólanna.
Lítil skref á leið til læsis. Samstarfsverkefni leikskólans Grænuvalla og Borgarhólsskóla á Húsavík, þar sem starfsfólk beggja skóla vinnur saman að því að efla málörvun og læsi barna m.a. í samstarfi við sjúkraþjálfara sem metur fínhreyfingar og leiðbeinir eftir þörfum.
Iðn- eða verkmenntun
Fataiðndeild Tækniskólans fyrir metnaðarfulla og faglega kennslu sem byggir á einstaklingsmiðuðu námi og raunverulegum verkefnum sem nemendur leysa á eigin hraða.
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum fyrir nýstárlega nálgun í námi í málm- og vélstjórnargreinum, þar sem hefðbundnu námi hefur verið umbreytt í verkefna- og atvinnutengt nám.
Unnar Þorsteinn Bjartmarsson grunn- og framhaldsskólakennari við Grunnskóla Borgarfjarðar og Fjölbrautaskóla Vesturlands – fyrir að kveikja áhuga nemenda á öllum aldri á iðn- og verknámi.
Komment