
Hinn 43 ára gamli Michael J. Esquilin mætti fyrir dómara í gær en hann er sakaður um að hafa stolið sjúkrabíl og ekið honum án leyfis undir áhrifum áfengis. Atvikið átti sér stað síðustu helgi í Tampa í Flórída og var hann á endanum stöðvaður af lögreglu.
Lögreglumennirnir eltu Esquilin nokkra kílómetra eftir að hann tók sjúkrabílinn. Hann er sagður hafa hunsað stöðvunarmerki, ekið á röngum vegarhelmingi og næstum valdið árekstri við mörg önnur ökutæki.
Hann stöðvaði loks við gatnamót South Hubert og West Empedrado eftir fyrirmæli lögreglu og sést hann í myndbandi sem tekið var upp vera að drekka bjór við stýrið. Lögreglumenn drógu hann þá út úr ökumannssætinu og settu hann í handjárn. Esquilin viðurkenndi að hafa verið að drekka í tvo daga samfleytt og að hann hafi stolið sjúkrabílnum eftir að honum var neitað um far heim.
Í gær mætti hann fyrir dóm, þar sem saksóknarar fullyrtu að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem hann væri sakaður um akstur undir áhrifum.
„Hæstvirtur dómari, hann hefur fjórum sinnum áður verið handtekinn fyrir að aka undir áhrifum áfengis,“ sagði saksóknari fyrir dómi í gær. „Ríkið hefur miklar áhyggjur af þessum málavöxtum, þar sem hér er um að ræða algjört og ósvikið virðingarleysi fyrir yfirvöldum.“
Á endanum ákvað dómarinn að sleppa Esquilin gegn því hann borgi lausnargjald, gangi um með staðsetningartæki á ökklanum og drekki ekki áfengi þar til aðalmeðferð í hans máli hefst.
Komment