Mikil umræða hefur skapast á Íslandi eftir að myndbönd af tveimur ungum þýskum systrum í Reynisfjöru voru birt á samfélagsmiðlum en önnur þeirra lést eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.
Eitt myndband sýnir yngri þýsku stúlkuna í sjónum áður en hún lést en sá sem hlóð því myndbandi á samfélagsmiðla hefur sagt á þeim miðli að hann hafi ákveðið að setja það á netið til að vekja athygli á hættunni sem skapast hefur í Reynisfjöru.
Annað myndband sýnir eldri systur hennar hlaupandi í Reynisfjöru öskrandi á hjálp fyrir systur sína frá fólki á ströndinni. Það myndband hefur verið spila oftar en milljón sinnum.
Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, er einn af þeim hefur ekki mikla trú á myndbirtingum af þessu tagi en segir erfitt að eiga við slíkt.
„Við viljum senda þau skilaboð til fólks sem verður vitni að slysum og óhöppum annarra að muna að það eru manneskjur á bak við hvert atvik, manneskjur sem eiga fjölskyldur og vini sem einnig eru á samfélagsmiðlum. Það má spyrja sig þeirrar spurningar, myndi það vilja sjálft að birtar séu myndir af þeim við slíkar aðstæður, jafnvel á versta tíma lífsins,“ sagði Sveinn um málið við Mannlíf.
Mannlíf hafði samband við Umboðsmann barna til að spyrja embættið um álit á þessum myndbirtingum.
„Það er ávallt mjög alvarlegt þegar myndir og myndbönd eru birt af börnum þar sem þau eru í viðkvæmri stöðu og mikilvægt að slíku efni sé ekki dreift áfram á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum,“ sagði Sigurveig Þórhallsdóttir hjá Umboðsmanni barna.
„Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs og það ber að virða réttindi þeirra. Það sama á við þegar fjölmiðlar eða foreldrar fjalla um málefni einstakra barna, þá ber að hafa hag barnsins að leiðarljósi og gæta þarf varkárni. Varðandi myndefni sérstaklega þá á ekki að birta myndir af börnum þar sem þeim líður illa, þau eru veik eða í hættu.“
Komment