
Margrét Kristín Blöndal eða Magga Stína eins og hún er iðulega kölluð, gagnrýnir málflutning Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra varðandi sniðgöngu Íslands í Eurovision á næsta ári. Það gerði Magga Stína í nýlegri Facebook-færslu.
Tónlistar- og baráttukonan Magga Stína byrjar færslu sína á tilvitnun í orð utanríkisráðherra Íslands í frétt RÚV, þar sem hún segist ekki trúa því að ákvörðun RÚV um að keppa ekki í Eurovision í Vínarborg á næsta ári, muni hafa áhrif á samskipti Íslands og Ísrels.
„Þorgerður Katrín telur að ákvörðunin muni ekki hafa áhrif á samskipti Íslands og Ísraels.“
„Á hún ekki að hafa áhrif á samskipti Íslands og Ísraels???
Er mikilvægt að ákvörðun RÚV í gær hafi ekki áhrif á samskipti Íslands við þjóðarmorðingjana?
Í hvaða leikriti erum við stödd?“ spyr Magga Stína og heldur áfram:
„Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Stefán Eiríksson eru sem sagt sammála um að ákvörðunina um að sniðganga Eurovision á næsta ári eigi ekki að skilja sem einhverja gagnrýni eða sniðgöngu á Ísrael.“
Hjálmtýr Heiðdal, formaður félagsins Ísland-Palestína segir í athugasemd við færsluna að um sé að ræða „galinn málflutning“ Þorgerðar Katrínar.
„Galinn málflutningur - það er þjóðarmorðið sem liggur að baki hvað sem ÞKG segir.“
Magga Stína svarar Hjálmtý með hárfínni kaldhæðni:
„Nei, það var bara þessi leiðindaþrýstingur frá íslenskum almenningi sem gerði að verkum að útvarpsstjóri sá sig loks tilneyddan til að hætta við þáttökuna og ber við þeim leiðindamóral sem hefur myndast í kringum keppnina núna, en hann segir ennfremur „RÚV er ekki að beita sér í þessu máli, RÚV er að taka sjálfstæða ákvörðun, dagskrártengda ákvörðun og í því eru ekki að felast einhver pólitísk skilaboð að okkar hálfu“.“
Bætir hún við að lokum að viðhorf Stefáns og Þorgerðar Katrínar sýni hvað viðhorf þeirra til þjóðarmorðsins í Palestínu, hafa.
„Þetta viðhorf útvarpsstjóra og undirtektir utanríkisráðherra segja kýrskýra sögu um viðhorf þeirra eftir að hafa fylgst með þjóðarmorðshrinu Ísraels í beinni útsendingu í rúmlega tvö ár og tvo mánuði.“

Komment