
Thelma Björk Jónsdóttir, fatahönnuður, listakona og yogakennari segist hafa tekið djúpa ákvörðun um að lifa í gleði og þakklæti eftir að hafa greinst með 4. stigs krabbamein. Thelma, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, tók lífsstílinn og hugarfarið í gegn og hefur náð ótrúlegum bata á skömmum tíma. Thelma ræðir í þættinum einnig um þá reynslu að eiga barn með Down´s heilkenni og vill að samfélagið taki alvöru umræðu um fjölbreytni. Hún segir Jón Árna, son sinn, hafa sett mikla birtu í líf allrar fjölskyldunnar og að hann kenni þeim stöðugt alls konar hluti um lífið og tilveruna.
Ljósið með Downs
„Við hjónin horfðum strax á þetta þannig að þetta væri nákvæmlega eins og þetta ætti að vera. Mér líður eins og hann hafi komið í heiminn fyrir okkur öll. Mig, Össa (eiginmann Thelmu) og bræður sína. Hann er rosalegt ljós inn í þennan heim sem átti að koma akkúrat þarna. Hann er með mjög háa tilfinningagreind og finnur og skynjar hluti sem flestir í kringum mig gera ekki. Það er margt sem hann tekur eftir og gerir sem maður áttar sig ekki á fyrr en eftir á. Hann á það til dæmis til að taka fyrir pabba á leikskólanum sem eru eitthvað niðurdregnir og ákveður að faðma þá á hverjum degi í mánuð. Hann velur sér ákveðna menn og það er ekki tilviljun hvernig hann gerir það. Hann er búinn að glæða líf okkar svo mikilli gleði og hlýju að það er erfitt að koma því í orð. Það er ekkert því til fyrirstöðu að geta lifað frábæru lífi með Down´s syndrome. Einstaklingar með þetta heilkenni geta unnið og funkerað mjög vel í samfélaginu okkar,” segir Thelma, sem sjálf ákvað að láta ekki skima fyrir mögulegum heilkennum á meðgöngunni.
Nær 100% fóstureyðing á einstaklingum með Down´s
„Ég ákvað í öllum meðgöngunum mínum að fara ekki í hnakkaþykktarmælingu, en það var ýtt talsvert á mig að gera það af fólkinu á spítalanum og þeim fannst það mjög skrýtið. Staðan er sú að það er nánast 100% fóstureyðing á Íslandi ef að fjölskylda fær þessar fréttir og fólk ákveður að láta skima fyrir þessu. Ég held að það séu tvær fjölskyldur á Íslandi sem hafa klárað meðgönguna eftir að hafa fengið jákvætt úr skimum fyrir Down´s. Það vekur upp spurninguna í hvernig samfélagi við viljum búa. Það er bara skannað fyrir þrennu. Down´s er eitt, svo er það heilkenni þar sem barni er vart hugað líf og svo annað þar sem fötlunin er gríðarlega mikil bæði andlega og líkamlega. Það að Down´s sé sett undir þennan hatt vekur upp alls konar spurningar. Ættum við þá að skima fyrir einhverfu, eða öðru sem fellur ekki alveg inn í normið? Undir hvaða kringumstæðum þykir okkur eðlilegt að láta mæla hugsanlega hluti hjá ófæddu barni og fara svo í fóstureyðingu ef það kemur út jákvætt úr skimum. Tækninni fleytir stöðugt fram og við verðum að eiga um þetta heildstætt samtal sem samfélag. Er eðlilegt að við séum að leika guð með þessum hætti og ákveða hverjir eru velkomnir í heiminn og hverjir ekki? Viljum við búa í samfélagi þar sem eru engir fatlaðir einstaklingar. Við tölum mikið um mikilvægi fjölbreytni í samfélaginu á tyllidögum, en svo virðist það ekki alltaf eiga við.”
Eiginmaður Thelmu, Örn Árnason er góður vinur Sölva og í þættinum segir Thelma söguna af því hvernig þau hjónin kynntust.
Eiginmaðurinn sofnaði á fyrsta stefnumóti
„Ég hafði hitt ykkur í fyrsta skipti á Systrasamlaginu sem þá var hjá sundlauginni á Seltjarnarnesi. Það er til mynd af okkur þennan morgun þar sem við hittumst fyrst. Fyrsta stefnumótið var svo bara fljótlega eftir það. Gæinn sækir mig og við förum í bíó, þar sem hann steinsofnaði á fyrsta deitinu okkar. Þetta var eftir að ég bauð ykkur báðum í yogatíma hjá mér og þið mættuð ekki. Hann sendi mér skilaboð eftir tímann og spurði hvernig hann gæti bætt mér það upp að hafa ekki mætt og ég sagði honum að hann gæti boðið mér í bíó. Hann spurði hvort ég væri laus þetta sama kvöld og við enduðum á að fara saman á James Bond. Svo er myndin hálfnuð þegar ég tek eftir því að hann er steinsofnaður. Svo var hann líka í öfugum bol og sitt hvorum sokknum og verandi fatahönnuður hélt ég að hann væri að ,,pulla” einhvern stíl, en það var ekki málið. Hann hafði bara farið í bolinn öfugan og þurfti svo að snúa honum við og sokkarnir voru líka bara tilviljun,” segir Thelma og hlær:
„Svo fórum við á rosalega langan rúnt eftir bíóið þar sem ég vissi ekki hvað var í gangi, en á endanum bað hann mig um að koma heim til sín og hjálpa sér að setja upp jólaseríu, sem ég og gerði! Ég man að hugsaði að annað hvort væri hann snargeðveikur, eða þetta væri einhver snillingur. Ég hafði allavega aldrei lent í þessu áður á fyrsta deiti og þetta virkaði greinilega hjá honum. Eftir á að hyggja var þarna bara á ferðinni maður í fullu flæði og við höfum eiginlega bara verið saman síðan.”
Thelma fékk risastórt verkefni í hendurnar í byrjun árs 2024, þegar hún greindist með fjórða stigs krabbamein sem var metið ólæknandi. Hún hafði nokkrum mánuðum áður fundið hnút í öðru brjóstinu og pantaði strax tíma á heilsugæslunni til að láta skoða sig.
Erfitt að lýsa áfallinu
„Ég var í sturtu og fann bara kúlu í brjóstinu á mér og fannst það skrýtið. Læknirinn sem ég hitti á heilsugæslunnni þreifaði á mér, en sagði mér að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur og ætti bara að fara heim, Þetta væri líklegast bara stíflaður mjólkurkirtill. Þetta var í lok árs 2023 og svo komu bara jólin og áramótin, en ég var alls ekki sannfærð og ákvað á endanum að hlusta á innsæið. Þannig að ég ákvað að hringja aftur og þurfti á endanum að væla út myndatöku. Um leið og myndatakan var búin sá ég bara og fann að þetta væri alvarlegt. Svo bara segir læknirinn við mig að þetta sé brjóstakrabbamein og það var fyrsta áfallið. Svo komu fréttirnar um að þetta væri búið að dreifa sér og væri fjórða stigs krabbamein. Þetta er svo mikið áfall að það er erfitt að lýsa því. Þetta eru bara fréttir sem þú vilt aldrei fá. Eitthvað sem þú heldur að komi fyrir hina, en ekki þig. En svo þegar þú færð að heyra þetta, þá gerist eitthvað. Mér finnst gott að lýsa þessu á svipaðan hátt og góð kona gerði í Ljósinu. Þetta er svolítið eins og að við værum í þyrluflugi, ég Össi og strákarnir mínir og við erum að fljúga yfir sjó og svo bara dettur botninn undan sætinu mínu og ég fell í sjóinn. Hvað gerir þú þá? Jú, þú byrjar að synda. Kannski hoppar fjölskyldan út í og syndir hluta með þér, kannski fer hún í bát til að hvetja þig áfram, svo ef þú ert heppinn, þá sérð þú eyju og gerir það sem þarf til að komast upp á hana. Þar ertu svo rennblaut og fólkið sem synti með þér klappar þér á bakið og segir: ,,Ég vissi að þú gætir þetta”. En svo fara allir, en þú situr eftir rennandi blaut, rétt að ná andanum, stödd á eyju sem þú þekkir ekki á neinn hátt. Ég upplifði tímabilið þegar ég fékk fréttirnar á þennan hátt. Nýja lífið mitt er að lifa í óvissu og hafa hugrekkið til að þora því og gera allt sem í mínu valdi stendur til að taka ábyrgð á því sem ég get tekið ábyrgð á.”
Thelma ákvað frá byrjun að gera allt sem hún gæti þegar kemur að lífsstíl og jákvæðu hugarfari. Hún segist hafa búið að því að hafa verið dugleg að leggja inn á sinn andlega banka í mörg ár.
Tók allt í gegn
„Það kikkaði bara strax inn að ég ætlaði að gera allt. Hvort sem það væri matarræðið, hugarfarið, rétt hvíld, hreyfing, tenging við náttúru eða annað. Ég tók allt í gegn. Ég tók strax út allan sykur og ég varð strax stokkbólgin þegar ég tók allar sykrur út og það var eins og líkaminn væri að hreinsa sig. Ég tek skot af hveitigrasi á hverjum degi, fer í súrefnis- og rauðljósameðferðir hjá Greenfit, fer í gufu og sund og út að labba. Ég ákvað strax að ég myndi gera alla þessa hluti samhliða lyfjagjöfinni. Strax í skanna númer tvö eftir lyfjagjöf sást ekki neitt lengur, nema smá í brjóstinu. Svo voru næstu skannar á eftir bara alveg hreinir, sem voru auðvitað stórkostlegar fréttir. Ég upplifði að ég væri gangandi kraftaverk,” segir Thelma, sem segist horfa algjörlega nýjum augum á lífið.
„Ég get ekki horft á þetta eins og kúr eða tímabundið verkefni. Ég verð í lyfjagjöf það sem eftir er, þannig að nú lifi ég bara nýrri tegund af lífi og horfi björt fram á veginn. Ég er ekki í neinni afneitun og algjörlega jarðtengd, en tek ákvörðun á hverjum degi um að setja athyglina á það sem er jákvætt og gott. Ég ætla að lifa í gleði og lifa í þakklæti. Hugarfarið skiptir öllu máli og ég trúi því að við lifum lengur þegar við erum í jákvæðni og þakklæti.“
Komment