
Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) hyggst á næstunni láta framkvæma nákvæma úttekt á olíumengun á lóðunum að Strandgötu 59 og 61 á Eskifirði. Rúmt ár er nú liðið frá því að fyrirtækið Móglí ehf., eigandi lóðanna, var krafið um tafarlausa hreinsun svæðisins, en engar aðgerðir hafa enn verið framkvæmdar. Þetta kemur fram í umfjöllun Austurfréttar.
Sjá fyrri frétt: Gripið til dagsekta vegna olíumengunar á Eskifirði – Hafa ítrekað hundsað kröfur HAUST
Í mars síðastliðnum hófst undirbúningur að því að stefna fyrirtækinu, þar sem dagsektir sem höfðu safnast upp yfir nokkurra mánaða tímabil höfðu ekki leitt til úrbóta. Heildarsektirnar nema nú um fjórum milljónum króna, án þess að eigandinn hafi sýnt neinn vilja til samstarfs.
Að sögn Láru Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra HAUST, er málið enn í vinnslu. Næstu skref felast í að meta nákvæmlega hve mikið magn olíu er til staðar á lóðunum.
Að því loknu verður unnin hreinsunaráætlun, sem verkfræðistofan Efla mun annast fyrir hönd HAUST, með samþykki allra lóðareigenda.
Komment