
Aðeins gistir einn í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. Alls voru 79 mál skráð í kerfinu á tímibilinu milli 17:00-05:00 í morgun. Hér má sjá nokkur dæmi um verkefni lögreglunnar á umræddu tímabili.
Talsvert var um að lögreglan sem starfar miðsvæðis í Reykjavík, hafi handtekið ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna en þeir voru allir lausir eftir sýnatöku.
Tilkynning barst lögreglunni vegna manns sem var með skurð á höfði eftir slagsmál á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Þegar lögreglan mætti á vettvang og ræddi við hinn slasaða, reyndist hann sótölvaður og afþakkaði hann alla aðstoð lögreglu. Var hann þó fluttur af sjúkraflutningamönnum á bráðamóttöku til frekari aðhlynningar.
Lögreglan sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði og í Garðabæ handtók ökumann vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengi og ávana- og fíkniefna og það með barn í bílnum. Var ökurmaðurinn látinn laus að blóðsýnatöku lokinni og var barnavernd kölluð til.
Þá barst tilkynning um ungmenni sem höfðu kastað eggjum í hús en þau fundust ekki.
Kópavogs- og Breiðholtslögreglan fékk tilkynningu um aðila sem var til vandræða í strætisvagni þar sem hann neitaði bæði að borga og yfirgefa vagninn. Lögreglan fór á vettvang.
Sama lögregla stöðvaði ökumann fyrir of hraðan akstur en hann ók á 109 km/klst. þar sem hámarkshraði var 50 km/klst. Var hann sviptur ökuréttindum til bráðabirgða og á von á sekt.

Komment