
David Kaff, sem þekktastur var fyrir hlutverk sitt sem hljómborðsleikarinn Viv Savage í hinni goðsagnakenndu kvikmynd This is Spinal Tap, er látinn, 79 ára að aldri.
Tilkynnt var um andlát hans á Facebook-síðu hljómsveitarinnar Mutual of Alameda’s Wild Kingdom, sem Kaff starfaði með. Þar kom fram að hann hafi andast friðsamlega í svefni. Dánarorsök var ekki gefin upp.
Hljómsveitin lýsti miklum söknuði og sagði Kaff hafa verið hlýjan, fyndinn og alltaf með bros á vör.
Kaff, sem hét réttu nafni David Kaffinetti, hóf feril sinn í bresku rokkhljómsveitinni Rare Bird árið 1969 og var þar til ársins 1975. Á þeim tíma gaf sveitin út fimm breiðskífur og náði vinsældum með laginu Sympathy, sem seldist í um eina milljón eintaka á heimsvísu.
Stóra tækifærið í kvikmyndageiranum kom árið 1984 þegar Kaff fékk hlutverk Viv Savage í gamanmyndinni This Is Spinal Tap í leikstjórn Rob Reiner. Þar lék hann meðlim í skáldaðri enskri rokkhljómsveit og sló í gegn með línum eins og „Quite exciting, this computer magic!“ og „Have a good time… all the time.“
Þrátt fyrir að Spinal Tap væri skálduð sveit, þá spiluðu Kaff og meðleikarar hans á nokkrum tónleikum fyrsta árið eftir útkomu myndarinnar, meðal annars í Saturday Night Live. Kaff yfirgaf þó sveitina fyrir lok árs og sneri sér að öðru.
Komment