
Samkvæmt yfirlýsingu dýraathvarfsins réðst hundurinn til atlögu þegar sjálfboðaliðinn opnaði dyrnar að herberginu þar sem hundurinn, Sarge, var geymdur. Árásin átti sér stað í síðustu viku í The Animal Haven athvarfinu.
„Án nokkurrar ögrunar stökk Sarge á sjálfboðaliðann áður en hún gat stigið inn í herbergið og réðst grimmilega á andlit hennar,“ sagði The Animal Haven í yfirlýsingu um árásina.
Sjálfboðaliðinn lifði árásina af en særðist alvarlega og hefur síðan gengist undir skurðaðgerð á andlitinu, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Stjórnendur athvarfsins segja að Sarge sé stór og sterkur hundur en hafi aldrei sýnt árásargirni á þeim tíma sem hann hefur verið í athvarfinu. Þá hafi sjálfboðaliðinn hafi verið hundinum kunnugur og heimsótt hann reglulega.
Sarge var bólusettur gegn hundaæði en stjórnendur staðarins segja að ekki sé hægt að útiloka að hegðunarbreyting hans hafi stafað af hundaæði og að hann gæti hafa verið sýktur áður en hann fékk bólusetningu. Upphaflega var lagt til að hundinum yrði lógað til að hægt væri að prófa hann fyrir hundaæði en hætt var við það samkvæmt The Animal Haven.
Sarge verður nú í sóttkví í að minnsta kosti 10 daga til að sjá hvort hann sýni einkenni hundaæðis. Eftir hana mun The Animal Haven leita að öðru athvarfi sem getur tekið við Sarge sem er betur búið til að annast hann.
Komment