
Indónesísk lögregluyfirvöld hafa handtekið 12 manns í tengslum við meint barnasmygl, en talið er að hópurinn hafi smyglað tugum ungbarna til Singapúr. Þetta staðfesti lögreglufulltrúi við AFP í dag.
Málið komst upp eftir að foreldri tilkynnti meint barnarán til lögreglu. Rannsókn leiddi yfirvöld að grunuðum aðila sem játaði að hafa haft viðskipti með 24 ungbörn, að sögn Surawan, yfirmanns almennra glæparannsókna hjá lögreglunni í Vestur-Java.
Að sögn lögreglu voru börnin flutt til borgarinnar Pontianak á Borneó og þaðan áfram til Singapúr. „Samkvæmt skjölum voru 14 börn send til Singapúr,“ sagði Surawan.
Hann bætti við að öll börnin væru undir eins árs aldri – sum aðeins þriggja, fimm eða sex mánaða gömul.
Yfirvöld náðu að bjarga fimm börnum í Pontianak og einu í Tangerang, nálægt höfuðborginni Jakarta. Samhliða voru tólf grunaðir handteknir í Jakarta, Pontianak og Bandung.
„Þetta er samtök – barnasmyglshringur – þar sem hver hefur sitt hlutverk,“ sagði Surawan.
Sumir í hópnum sáu um að finna börn, aðrir sinntu umönnun þeirra, hýstu þau eða útbjuggu skjöl eins og fjölskyldukort og vegabréf.
Samkvæmt framburði grunaðra höfðu samtökin starfað frá árinu 2023. Lögreglan segir hópinn hafa leitað að „foreldrum eða mæðrum sem vildu ekki ala börn sín upp“ gegn greiðslu.
Foreldrið sem tilkynnti meinta mannránstilraun hafði í raun gert samkomulag við smyglarana fyrir fæðingu barnsins, en tilkynnti þá til lögreglu eftir að greiðsla barst ekki.
Mannsal er einnig innanlandsmein í stærsta hagkerfi Suðaustur-Asíu, sem spannar yfir 17.000 eyjar. Í einu alvarlegasta máli síðustu ára fundust 57 manneskjur lokaðar inni í búri á olíupálmaræktarsvæði í Norður-Súmötru árið 2022.
Komment