Ísak Gunnlaugsson hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi af Héraðsdómi Suðurlands en dómur þess efnis var birtur fyrir stuttu.
Ísak var ákærður fyrir rán með því að hafa, þriðjudaginn 1. ágúst 2023, í Veiðivötnum við Stóra Fossvatn í Rangárþingi ytra, með líkamlegu ofbeldi og hótunum um líkamlegt ofbeldi þvingað annan einstakling, til þess að afhenda ákærða kveikjuláslykla og bifreið hans. Hann á að hafa gert það með því að taka með hægri hendi í hálskraga á jakka sem einstaklingurinn klæddist, hrinda honum, kreppa vinstri hnefa og endurtekið hóta honum barsmíðum ef hann afhenti honum ekki kveikjuláslyklana, og síðan þegar það hafði tekist ekið bifreiðinni þaðan á brott.
Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Ísak játaði brot sín en samkvæmt dómnum hafði hann í tvígang áður gerst brotlegur, í bæði skiptin vegna umferðarlagabrota. Hann sagði fyrir dómi að hann iðrist gjörða sinna og að um einstakt tilvik hafi verið að ræða. Hann leggi ekki slíka háttsemi í vana sinn.
Dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára en Ísak þarf einnig að greiða 300 þúsund krónur í sekt innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 20 daga.
Komment