
Íslenskur karlmaður hefur verið dæmdur af Héraðsdómi Reykjaness fyrir brot á hegningarlögum, umferðarlögum og lögreglulögum.
Hann var ákærður fyrir að hafa miðvikudaginn 3. janúar 2024 ekið bifreið óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja, án þess að hlýða fyrirmælum lögreglu, sem reyndi að stöðva bifreiðina með forgangsakstursljósum lögreglubifreiðar, svo að eftirför lögreglu hófst þar sem ákærði ók án nægjanlegrar tillitssemi og varúðar og yfir óbrotnar miðlínur og ógætilega á milli bifreiða án þess að gefa stefnumerki og án þess að miða ökuhraða við aðstæður með sérstöku tilliti til öryggis annarra og yfir leyfilegum hámarkshraða í þéttbýli.
Lýsing á eltingaleik í dómnum
Ákærði ók austur Grænásveg í Reykjanesbæ, þar sem lögregla gaf honum fyrst merki með forgangsakstursljósum lögreglubifreiðarinnar um að stöðva sem ákærði sinnti ekki heldur jók hraðann og ók háskalega fram úr bifreið við Grænásveg þar sem litlu mátti muna að bifreiðin […] hefði hafnað framan á farmflutningabifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt, því næst beygði hann suður aðrein að Bergási þar sem hann ók of hratt miðað við aðstæður og með allt að 68 km hraða á klukkustund, þar sem leyfður hámarkshraði er 30 km á klukkustund, uns hann beygði til suðurs inn á Vallarás þar sem hann ók of hratt miðað við aðstæður og með allt að 85 km hraða á klukkustund, þar sem leyfður hámarkshraði er 30 km á klukkustund, en ákærði ók Vallarás til suðurs þar til hann missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin hring snerist á mikilli ferð og hafnaði utan vegar við Vallarás þar sem bifreiðin nam staðar og var lögreglubifreiðinni þá lagt framan við bifreiðina […] þar sem hún var kyrrstæð og gaf lögregla ákærða fyrirmæli um að stíga út úr bifreiðinni sem ákærði sinnti ekki heldur gangsetti hann hreyfil bifreiðarinnar […] og tók af stað suður Vallarás í átt að Fitjum en missti stjórn á bifreiðinni á ný með þeim afleiðingum að bifreiðin snerist hálfan hring en ákærði bakkaði þá bifreiðinni of hratt miðað við aðstæður og á um 40 km hraða á klukkustund suður Vallarás í átt að Fitjum þar sem litlu mátti muna að ekið hefði verið á gangandi vegfaranda, en ákærði bakkaði bifreiðinni uns hann missti stjórn á henni og bifreiðin endaði utan vegar og á grindverki við Fitjar 2 þar sem lögregla stöðvaði akstur bifreiðarinnar.
Með akstrinum raskaði ákærði umferðaröryggi í alfaraleið og stofnaði á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu vegfarenda á akstursleið sinni í augljósan háska, þar á meðal lögreglumanna sem reyndu að stöðva hann.
Maðurinn játaði brot sín en hann hefur áður gerst sekur um refsiverð athæfi.
Hann var dæmdur í 4 mánaða fangelsi en dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára. Þá þarf hann að greiða 540.000 króna fésekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu, en sæti ella fangelsi í 30 daga. Hann var sömuleiðis sviptur ökurétti í fjögur ár frá 15. maí 2027 en hafði verið sviptur ökurétti til þess dags áður.
Komment