
Mannréttindasamtök hafa birt nafn þess ísraelska hershöfðingja sem ber beina ábyrgð á drápi á palestínsku stúlkunni Hind Rajab, fjölskyldu hennar og tveimur sjúkraflutningamönnum sem reyndu að bjarga henni í Tel al-Hawa-hverfinu í Gaza-borg þann 29. janúar 2024.

Sjá einnig: Lík Hindar litlu fundið í bifreið frænda hennar: „Komdu og sæktu mig“
Í yfirlýsingu sem Hind Rajab Foundation, sjálfstæð frjáls félagasamtök með aðsetur í Brussel, sendi frá sér á laugardag segir:
„Við getum nú opinberlega nefnt yfirmanninn sem ber ábyrgð á drápi Hindar:
Undirhershöfðinginn Beni Aharon.
Hann var yfirmaður 401. brynvarðasveitar ísraelska varnaliðsins (IDF) þegar drápin áttu sér stað.“

Samtökin segja þessa niðurstöðu vera afrakstur meira en árs langrar rannsóknar. Þau staðfesta jafnframt að þeir hafi borið kennsl á hermenn sveitarinnar, vettvangsstjórnendur og aðgerðarstjóra sem tóku þátt í árásinni undir stjórn Aharons.
Stofnunin greinir frá því að hún „hafi lagt fram kæru um stríðsglæpi hjá Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag“ með það að markmiði að gefa út handtökuskipun á hendur undirhershöfðingjanum Beni Aharon. Jafnframt segir: „við erum að undirbúa frekari lögsóknir gegn yfirmönnum hersveitarinnar.“
Hind Rajab Foundation er mannréttinda- og lagadeild hreyfingarinnar March 30 og var stofnuð til minningar um hina sex ára Hind Rajab. Meginmarkmið hennar er að draga ísraelska hermenn sem sakaðir eru um stríðsglæpi gegn Palestínumönnum til ábyrgðar.
Hernaðaraðgerðir Ísraels á Gaza, sem njóta fulls stuðnings Bandaríkjanna, hafa staðið yfir frá 7. október 2023 á landi, sjó og úr lofti. Meira en 170.000 Palestínumenn hafa annað hvort verið drepnir eða særðir, og margir eru enn grafnir undir rústum.
Komment