
Bandaríski stórleikarinn Jeff Daniels lét til sín taka í nýlegum hlaðvarpsþætti MSNBC, The Best People, sem Nicolle Wallace stýrir, þar sem hann lýsti yfir von sinni um að stuðningsmenn Donalds Trump myndu tapa peningum fyrir að valda því að Bandaríkin þurfi að þola annað kjörtímabil með Trump sem forseta.
„Ég vona að þið séuð að tapa fullt af peningum, þau ykkar sem hélduð að þetta væri í lagi,“ sagði Daniels afdráttarlaust við þá sem greiddu Trump atkvæði. „Spurning mín er: hvað ætlið þið að gera í því?“
Wallace svaraði og sagði að tollastefna Trump myndi skaða kjósendur hans og „nágrannana“, sem Daniels var sammála en hann bætti við: „Ég held að að lokum verði það þetta sem málið snýst um. ‘Bíddu við, matarkarfan kostar hvað mikið? 180 dollurum meira? Ég get ekki keypt bílinn sem við þurfum nema borga 8.000 dollurum meira? Ha? Hverjum á ég að kenna um fyrir þetta? Hvern á ég að tala við um þetta?’ Einn mann.“
Daniels sagði áfram að lokaniðurstaðan snúist um daglegt líf almennings: „Verður eggjaverð hærra eða lægra? Því það var það sem hann lofaði, að lækka matarreikninginn minn,“ sagði hann og líkti Trump við „snákaolíusala“ (e. snake oil salesman).
Daniels studdi Kamölu Harris í forsetakosningunum í fyrra og sagði að Bandaríkin hefðu „glatað sómakennd“ undir stjórn Trump.
„Við höfum glatað sómakennd, kurteisi, virðingu fyrir lögum og reglu, það er farið,“ útskýrði Daniel
„Við höfum gert netníð og einelti að eðlilegu ástandi. Þrátt fyrir tilraunir ‘woke’ kynslóðarinnar til að breyta því, þá er það komið aftur … Fólk hefur aldrei haft mikla trú á stjórnmálamönnum, það er ekkert nýtt, Mark Twain benti á það fyrir löngu. En í hugmyndafræðinni eigum við að kjósa það besta í hópnum, ekki það versta. Hann er birtingarmynd alls sem er rangt, ekki bara í Bandaríkjunum, heldur í því að vera manneskja.“
Daniels lék nýlega aðalhlutverk í sjónvarpsþáttunum American Rust og A Man in Full. Næsta kvikmynd hans er Reykjavik, pólitískt drama þar sem hann fer með hlutverk Ronalds Reagan, á móti Jared Harris sem leikur Mikhail Gorbatsjov, í endursögn af leiðtogafundi þeirra í Höfða árið 1986.
Komment