
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, fer hörðum orðum um Nóbelsfriðarverðlaunin í nýrri Facebook-færslu þar sem hann kallar verðlaunin til Maríu Corinu Machado þau „óskiljanlegustu í sögunni“. Hann líkir jafnframt verðlaununum við „nöturlegt grín“ og segir að um „skandal“ sé að ræða sem skeri sig úr, jafnvel þegar litið sé til annarra umdeildra ákvarðana Nóbelsnefndar í gegnum tíðina.
Kristinn ritar að „það má varla á milli sjá hvort er meira nöturlegt grín, friðarverðlaun FIFA … eða friðarverðlaun Nóbels sem María Corina Machado fékk formlega í Osló í gær“.
Rifjar upp umdeilda verðlaunahafa
Í færslunni fer Kristinn yfir dæmi úr sögu verðlaunanna þar sem verðlaunahafar hafi síðar brugðist trausti. Hann nefnir meðal annars Aung San Suu Kyi í Myanamar og Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu og bendir á að Nóbelsnefndin hafi áður þurft að „bera ennþá nokkurn kinnroða“ yfir ákvörðunum sínum.
„Friðarins menn í Osló bera ennþá nokkurn kinnroða yfir að hafa veitt Henry Kissinger verðaunin 1973 fyrir að koma á vopnahléí í Viet Nam sem varð svo strax að engu en bandaríski utanríkisráðherrann dundaði sér sama ár við að plotta valdarán hersins í Chile þar sem forseti landsins Salvador Allende endaði sína daga í sundursprengdri forsetahöll. Nóbelsfriðarverðlaunahafinn Kissinger átti eftir að vera með langt sakavottorð annara glæpa, í Austur-Tímor, Bangladesh, Cambodiu og Laos svo fátt eitt sé nefnt.“
Hann vitnar til samtals við starfsmann Nóbelsnefndar sem hafi helst „skammast sín ennþá meira fyrir að hafa hengt friðarverðlaunin á Barak Obama árið 2009“.“
„Fyrir nokkrum árum hitti ég starfsmann Nóbelsnefndarinnar í Osló og þegar ég bar upp á hann sögu Kissinger fannst mér að hann skammaðist sín ennþá meira fyrir að hafa hengt friðarverðlaunin á Barak Obama árið 2009 nokkrum mánuðum eftir að verða Bandaríkjaforseti en friðarframlagið var sum sé að „segjast” vera friðarins maður. Annað kom á daginn enda stórfjölgaði hann í herjum Bandaríkjamanna í Afganistan í vonlausasta stríði bandarískrar sögu, taka þátt í að leggja Líbíu í rúst og víkka síðan út drónaárásir í fjölda landa þar sem vinsælast þótti að senda sprengjur á ættarmót og brúðkaup.“
Styður þjóðamorð Benjamin Netanyahu
Kristinn fullyrðir að María Corina Machado uppfylli engan veginn markmið Alfreds Nobel. Hann segir að „það hefur legið fyrir ódulið hvaða mann hún hefur að geyma“ og að hún hafi „hvatt til árása erlendra herja á eigin þjóð“.
Hann bætir við að hún hafi „stutt dyggilega við bakið á Benjamin Netanyahu, þjóðarmorðingjanum í Ísrael“ og gagnrýnir að hún hafi fagnað árásum bandaríska hersins á fiskibáta undan ströndum Venesúela, sem að hans sögn hafi „slátrað þar með yfir 80 manns undir því yfirskyni að þar séu dópflutningamenn á ferðinni, án þess að færa fyrir því nokkrar sannanir“.
Kristinn segir jafnframt að þegar Donald Trump hyggist tryggja olíuhagsmuni með innrás í Venesúela verði María „klappstýran enda hefur hún lofað því opinberlega að bandarísk fyrirtæki fái aðgang að auðlindum eigin ættjarðar“.
Að hans sögn var fyrsta verk hennar eftir að hafa fengið tilkynningu um verðlaunin „að hringja í Dónald Trump, þakka honum stuðninginn og lýsa því yfir að í raun og sannleik væri hún að taka við þessum friðarverðlaunum jafnmikið fyrir hann og sig“.
„Aumingja Alfred Nobel“
Kristinn segir að „aumingja“ Alfred Nobel myndi „bylta sér órólega í gröfinni“ yfir núverandi stöðu friðarverðlaunanna og vitnar í erfðaskrá Nobels þar sem segir að verðlaunin skuli veitt þeim sem „hefur afrekað mest eða stuðlað umfram aðra, að bræðralagi milli þjóða, fækkun í herjum og fyrir að halda friðarráðstefnur eða unnið að þeim“.
Færslunni lýkur með tilvitnun í Mahatma Gandhi um vestræna siðmenningu: „Ég held að hún yrði ágætist hugmynd“, sem Kristinn notar til að undirstrika að honum þyki vestræn siðmenning „hratt að hverfa sem jafnvel ágæt hugmynd“.

Komment