80 ára gamall maður hefur verið handtekinn á Tenerife South-flugvellinum eftir að hafa reynt að fara um borð í flug með eiginkonu sinni, sem þegar var látin, sitjandi í hjólastól eins og hún væri venjulegur farþegi. Atvikið átti sér stað við öryggiseftirlitið, þar sem í fyrstu virtist ekkert óeðlilegt en greint er frá þessu í spænskum fjölmiðlum.
Það var ekki fyrr en hjónin fóru í gegnum málmleitartækið að öryggisvörður tók eftir því að konan brást ekki við. Þegar vörðurinn gekk að henni og tók í hönd hennar áttaði hann sig á því að konan var köld viðkomu og andaði ekki.
Öryggisverðir, lögreglan og réttarmeinafræðingar voru í kjölfarið kallaðir á svæðið.
Málið minnir á nýlegt atvik á EasyJet-flugi frá Malaga til London, þar sem maður náði að fara um borð með látna eiginkonu sína áður en flugáhöfnin uppgötvaði að hún sýndi engin lífsmerki.
Á Tenerife South-flugvellinum sagði eiginmaðurinn starfsmönnum í fyrstu að eiginkona hans hefði látist aðeins nokkrum klukkustundum áður, að sögn inni á flugvellinum. Hins vegar segja sumir starfsmenn að hann hafi ítrekað reynt að kenna flugvallaraðstöðunni um andlát hennar, eitthvað sem yfirvöld eru nú að rannsaka.
Maðurinn var handtekinn en sýndi samstarfsvilja við lögreglu. Rannsókn málsins stendur enn yfir til að skera úr um nákvæma dánarorsök konunnar og hvort maðurinn kunni að sæta refsiábyrgð.
Ekki hefur verið greint frá því hvers lenskt fólkið er.


Komment