
Lögreglan hefur aukið leitaraðgerðir að Kacey-Rae, sem er langt gengin á meðgöngu, en hún hefur verið týnd í nærri tvo sólarhringa. Hún sást síðast í fylgd með ungum pilti að nafni George, sem einnig er skráður týndur, í miðborg Gloucester í Suðvestur Englandi um klukkan 17.30 á sunnudag. Vitni telja að parið hafi einnig sést um klukkan 20 á lestarstöðinni í Gloucester, en síðan hefur ekkert spurst til þeirra.
Kacey-Rae er upprunalega frá Walsall í West Midlands, á meðan George er frá Wolverhampton í sama héraði. Lögregla telur líklegt að þau hafi farið frá heimili Kacey-Rae í Cinderford í Gloucestershire og haldið aftur til West Midlands.
Lögregla hefur auknar áhyggjur af velferð Kacey-Rae. Hún er sögð vera um 168 sentímetrar á hæð, með brúnt hár með rauðum lit í, sem hún ber bundið upp. Hún var klædd í bleika hettupeysu, svartan jakka með loðkraga og gráar, útvíðar buxur þegar hún sást síðast.
George er sagður um 183 sentímetrar á hæð, stórvaxinn og ljóshærður. Hann var í bláum McKenzie-jogginggalla.

Komment