
Madison Boscoe-Hough, 21 ára, fannst meðvitundarlaus undir stýri í Audi-bifreið með vélina í gangi og tóma blöðru í munninum, samkvæmt frásögn sem fram kom fyrir dómi í Warrington í Englandi.
Lögreglan átti í erfiðleikum með að ná sambandi við hana þegar hún rankaði við sér, en samkvæmt vitnisburði „meikaði hún engan skynsamlegan sens“ þegar hún byrjaði að tala.
Atvikið átti sér stað í bænum Widnes í Cheshire að kvöldi 2. ágúst. Boscoe-Hough fannst í ökumannssætinu með tóma blöðru í munninum og stórt gashylki í fanginu, vélina í gangi og bílinn í gír.
Síðar fannst kókaín í blóði hennar í fíkniefnaprófi sem tekið var á vettvangi.
Samkvæmt saksóknara, Umer Zeb, hafði áhyggjufullur vegfarandi hringt í lögregluna um kl. 19:44 eftir að hafa séð konuna með blöðru í munninum og ákveðið að fylgja bílnum. Þegar lögreglan kom á vettvang var tónlist í gangi í bílnum, fótur hennar á bremsunni og hún svaraði engu kalli.
Sjúkrabíll var þegar kominn á staðinn þegar lögreglumenn opnuðu bílinn og komust að henni. Hún var með farsíma í kjöltunni og þegar hún vaknaði kom ekkert vitrænt úr munni hennar.
Blóðrannsókn síðar sýndi að hún var með 68 míkrógrömm af bensóýlekgóníni (BZE) í blóðinu á hvern lítra, niðurbrotsefni kókaíns, en löglegt hámark er 50 míkrógrömm.
Boscoe-Hough, sem býr í þorpinu Sutton Leach nærri St. Helens, játaði sök vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna.
Hún var svipt ökuréttindum í 20 mánuði og dæmd í 346 punda sekt, auk 223 punda í kostnað og álagi, samkvæmt frétt Manchester Evening News.
Dómarinn Ian Johnstone sagði við uppkvaðningu:
„Þú varst meðvitundarlaus, vélin var í gangi og bíllinn í gír. Þetta er algjörlega óásættanlegt aksturslag.“
Komment