
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hvetur Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra til að grípa til raunverulegra aðgerða til að bæta stöðu verka- og láglaunafólks. Í færslu á Facebook segir hún að ástandið á húsnæðismarkaði sé óviðunandi og að ríkið verði að axla ábyrgð.
„Ég bið forsætisráðherra að grípa til raunverulegra aðgerða til að lina efnahagsleg vandamál verka og láglaunafólks sem er fast á gróðavæddum leigumarkaði,“ skrifar hún.
Sólveig Anna bendir á að nærri 4.000 manns séu nú á biðlista hjá Bjargi íbúðafélagi í þeirri von að losna undan gróðadrifnum leigumarkaði. Hún segir íslenska yfirstétt hafa, í kjölfar bankahrunsins, breytt húsnæði almennings í fjárfestingarkost fyrir sig og hagnast stórlega á því.
Hún gagnrýnir jafnframt stjórnvöld fyrir að hafa árum saman leyft þessu kerfi að þróast, með aðgerðaleysi eða beinum aðgerðum, og að það hafi skapað djúpa stéttskiptingu og efnahagsleg vandamál sem erfist milli kynslóða.
„Ég bið hana um að viðurkenna hátt og snjallt að vinnuaflið framleiðir verðmætin og heldur með vinnu sinni umönnunarkerfum þjóðfélagsins starfhæfum,“ segir Sólveig Anna, sem gagnrýnir jafnframt stjórnmálamenn fyrir að líta fram hjá þörfum verka- og láglaunafólks.
Hún segir stéttskiptingu og misskiptingu vera samfélagslegt eitur og að forsætisráðherra ætti að hafa mun meiri áhyggjur af þeim vandamálum sem slíkt skapar heldur en af „tón og orðum þingmanna“ en við færsluna birtir Sólveig Anna skjáskot af frétt RÚV þar sem sagt er frá því að Kristrún hafi beðið þingmenn um að gæta orða sinna á þingi.
Komment