
Kristján Þ. Jónsson, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni og einn þeirra sem sigldi gegn flota Breta í þorskastríðunum, er látinn 77 ára að aldri. Mbl.is sagði frá andlátinu.
Kristján fæddist í Reykjavík 29. maí 1948, sonur hjónanna Jóns Kr. Sveinssonar og Sigurlaugar Kristjánsdóttur. Hann steig sín fyrstu spor á sjó aðeins fjórtán ára gamall, þegar hann fór í sína fyrstu sjóferð sem nemi á varðskipinu Sæbjörgu snemma á sjöunda áratugnum. Þar kviknaði ævilangur áhugi hans á siglingum, björgunarstörfum og þjónustu við landið.
Vorið 1965 hóf Kristján störf hjá Landhelgisgæslu Íslands, þá sautján ára, og var fyrst á varðskipinu Ægi. Fljótlega varð hann háseti og hélt í nám við Stýrimannaskólann, þaðan sem hann lauk farmannaprófi vorið 1971. Að prófi loknu tók hann við starfi sem þriðji stýrimaður á vitaskipinu Árvakri og lauk síðar námi í varðskipadeild skólans árið 1972.
Sumarið 1985 tók Kristján fyrst að sér skipherrastörf á Ægi og árið 1993 var hann skipaður fastur skipherra Landhelgisgæslunnar. Á löngum ferli sínum tók hann þátt í fjölmörgum björgunaraðgerðum á hafi úti og hafði lykilhlutverki að gegna í þorskastríðunum þegar Íslendingar vörðu fiskveiðilögsögu sína.
Ferill hans var fjölbreyttur; Kristján starfaði einnig hjá flugdeild Landhelgisgæslunnar, hafði yfirumsjón með köfunarmálum, sinnti kennslu og var yfirmaður gæsluframkvæmda.
Þegar Kristján lét af störfum árið 2009, á 61 árs afmælisdaginn, var honum sýndur sérstakur heiður þegar þremur fallbyssuskotum var hleypt af þegar Ægir lagðist að bryggju. Í kveðjuorðum sínum rifjaði Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar upp að útskriftarferð Kristjáns úr Stýrimannaskólanum var í leigubifreið beint niður á bryggju, þar sem varðskipið beið hans.
Eftirlifandi eiginkona Kristjáns er Sveinbjörg Guðmarsdóttir, fyrrverandi bankastarfsmaður. Þau eignuðust fjögur börn og eiga átta barnabörn.

Komment