
Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að skipa Kristmund Stefán Einarsson í embætti lögreglustjóra á Austurlandi frá 1. nóvember næstkomandi en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
Kristmundur Stefán hefur starfað innan lögreglu í tæplega 18 ár og er menntaður lögreglumaður og lögfræðingur.
„Kristmundur Stefán hefur síðan í febrúar 2025 starfað sem aðalvarðstjóri og samhliða því aðstoðarsaksóknari við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Kristmundur hefur í starfi sínu sem aðalvarðstjóri hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu borið ábyrgð á að stýra 35 manna deild. Hann hefur átt frumkvæði að og stýrt fjölmörgum umbótaverkefnum hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Kristmundur hóf störf hjá lögreglunni árið 2007 og lauk námi við Lögregluskóla ríkisins árið 2009. Árið 2018 lauk hann meistaraprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands.
„Hann hefur starfað sem lögreglumaður á landsbyggðinni, nánar tiltekið á Blönduósi, Selfossi, Þórshöfn og á höfuðborgarsvæðinu. Á árunum 2010-2017 starfaði hann sem lögreglumaður í almennri löggæslu við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og sem staðgengill varðstjóra frá 2017.
Kristmundur hefur verið aðstoðarsaksóknari við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu síðan árið 2018. Árið 2021 tók hann við stöðu teymisstjóra á ákærusviði embættisins og sinnti því þar til hann tók við starfi aðalvarðstjóra við sama embætti. Þá hefur hann sinnt afleysingum fyrir embætti lögreglustjórans á Vestfjörðum og embætti lögreglustjórans á Austurlandi.“
Úlfari Lúðvíkssyni, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, bauðst að taka við embættinu fyrr á þessu ári þegar honum var tilkynnt að staða hans á Suðurnesjum yrði auglýst. Hann afþakkaði það og óskaði eftir starfslokasamningi og varð dómsmálaráðherra við þeirri beiðni.

Komment