
Ný bók í Noregi vekur mikla athygli fyrir lýsingar á því hvernig krúnuprinsessan Mette-Marit hafi verið vöruð við fyrirhugaðri handtöku sonar síns, Mariusar Borg Høiby, og jafnvel að hún hafi sjálf hjálpað honum að hreinsa íbúðina áður en lögreglan mætti.
Samkvæmt bókinni Hvítar rendur, svartur sauður („White Stripes, Black Sheep“) eftir blaðamennina Torgeir T. Krokfjord og Øystein Norum Monsen, hafi lögreglan ákveðið að halda upplýsingum leyndum fyrir prinsessunni í seinni handtökunni, af ótta við að hún gæti aftur lekið upplýsingum um áform þeirra.
Reiddist og fannst hún niðurlægð
Í bókinni kemur fram að þessi ákvörðun hafi sært Mette-Marit djúpt. Samkvæmt heimild Se og Hør fannst henni hún eiga rétt á að vita af stöðunni sem móðir, og hún hafi verið bæði reið og vonsvikin yfir framgöngu lögreglu. Heimildarmenn segja að prinsessan hafi upplifað þetta eins og lögreglan hafi „komið aftan að sér og niðurlægt“ hana.
Marius Borg Høiby, sem er 28 ára, er ákærður fyrir nokkur brot, þar á meðal heimilisofbeldi og kynferðisbrot.
„Ósannindi og órökstuddar fullyrðingar“
Verjendur Mariusar, lögfræðingarnir Ellen Holager Andenæs og Petar Sekulic, hafna innihaldi bókarinnar alfarið og lýsa henni sem „óstjórnlega leiðinlegri“.
„Þetta er bók sem myndi líklega ekki seljast ef ekki væri mynd af Marius á kápunni. Hún inniheldur mikið af orðrómi og hálfsannleikum,“ segja þeir í yfirlýsingu.
Í gær var PDF-útgáfa bókarinnar send til norska konungshallarinnar.
Í svari við fyrirspurn fjölmiðla skrifar Guri Varpe, samskiptastjóri hallarinnar, til VG:
„Við viljum ekki tjá okkur um öll smáatriði og fullyrðingar í þessari bók. Hún inniheldur fjölda ósanninda, órökstuddar fullyrðingar og ályktanir, að hluta til frá nafnlausum heimildum.“
Hún bætir við:
„Höfundarnir halda því fram að þeir hafi nafnlausar heimildir innan PST og lögreglunnar. Við getum ekki svarað fyrir það sem þeir segja.“
Komment