
Lárus Björn Svavarsson, sem margir þekktu úr götulífi Reykjavíkur á árum áður og fyrir eftirminnileg tilsvör og tiltæki, lést á sunnudag, 74 ára að aldri. Hann var betur þekktur undir gælunafninu Lalli Johns eftir samnefnda heimildarmynd Þorfinns Guðnasonar.
Lalli var annálað ljúfmenni, sem snemma var brotinn af kerfinu þegar hann var sendur í vistun á hinu alræmda vistheimili Breiðuvík, þar sem hann mátti þola ofbeldi og mikla harðneskju.
Þrátt fyrir langan afbrotaferil, sem að langmestu snérist um þjófnað, var Lalli afar vel liðinn af þjóðinni, þótti góðlegur, skemmtilegur í tilsvörum og hress.
Fjölmargir Íslendingar eiga sína sögu af Lalla Johns. Undirritaður blaðamaður var að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur einhvern tíma í kringum 2005, með félögum sínum. Sótti blaðamaðurinn salerni á nærliggjandi bar í Austurstrætinu. Á leið aftur út til félaga sinna rakst hann á Lalla Johns inni á barnum, sem hann hafði aðeins séð í sjónvarpinu og á síðum blaðanna. Brást hann þannig við að hrópa upp yfir sig „Nei, Lalli Johns!“ Lalli, sem var álíka kenndur og blaðamaðurinn á þeim tíma, breiddi út faðminn og hrópaði: „Nei, blessaður!“ Hann faðmaði blaðamanninn fast og innilega, líkt og hann hafi verið að hitta löngu týndan vin. Svo hélt blaðamaðurinn ferð sinni áfram um stræti Reykjavíkur, með hlýrra hjarta en áður.
Sögur af Lalla Johns
Edda Björgvinsdóttir leikkona þekkti Lalla í fjölmörg ár en faðir hennar, Björgvin Magnússon kenndi honum í barnaskóla. Leikkonan skrifaði falleg minningarorð um Lalla á Facebook í dag þar sem hún segir meðal annars frá því þegar þau hittust á tröppum Þjóðleikshússins.
„Ég gleymi aldrei fallega vordeginum þegar ég gekk niður tröppurnar á vinnustað mínum Þjóðleikhúsinu, skömmu eftir að kvikmyndin um hann hafði verið frumsýnd. Lalli var á röltinu upp Hverfisgötuna og kom auga á mig og hrópaði: „Edda mín - veistu að ég er líka orðinn frægur!?“ svo hljóp hann yfir götuna og faðmaði mig innilega, eins og hann gerði alltaf þegar við hittumst.“
Bubbi Morthens tónlistarmaður minnist Lalla í Facebook-færslu en um hann á Bubbi margar góðar minningar frá árum áður.
„Þarna héngum við, krakkar sem áttum áföll sem ferðafélaga.“
„Lárus Björn Svavarsson sem var kallaður Lalli Johns er farinn úr þessu lífi. Ég hitti Lalla fyrst á Hressingarskálanum, ljósan yfirlitum,“ segir Bubbi. „Hann samsvaraði sér vel, stæltur, ekki ólaglegur, hláturmildur með fallegt bros. Lalli var eldri en við hin, munaði nokkrum árum, þarna héngum við, krakkar sem áttum áföll sem ferðafélaga. Stebbi vinur minn og fleiri strákar og stelpur. Ég á margar minningar um Lalla frá árunum 1972 - 1975. við slógumst og drukkum og lifðum lífinu. Ég fór út á land á vertíð og þegar ég kom í bæinn voru margir af vinum og kunningjum komnir í fangelsi, þar á meðal Lalli. Ég átti eftir að spila mörg jól á Hrauninu og oftar en ekki var Lalli þar, alltaf vel til hafður, brosmildur og alltaf færði hann mér jólakort. Lalli var náttúrugreindur, einlægur og með bernskt hjarta, lífið var grimmt við Lalla en hann var aldrei grimmur við lífið. Sem strákur var hann vistaður á Breiðuvík og sú vist yfirgaf hann aldrei. Mér þótti alltaf vænt um Lalla og sumarið 1972 leit ég upp til hans, þessa vöðvastælta töffara með brosið sem heillaði. Svo náði hann þeim dásamlega áfanga að verða edrú seinustu ár ævinnar. Ég á margar minningar um Lalla og enga slæma og það er sannarlega fallegt, blessuð sé minning hans.“
Nærveran gaf hlýju í hjartað
Elín Arna Arnardóttir Hannam hjá Draumasetrinu minnist Lalla einnig með miklum hlýhug en hann bjó á Draumasetrinu síðustu árin, allt þar til hann fór inn á Hrafnistu síðasta árið. Færslan er löng og falleg en hér má sjá brot:
„Lalli var svo mikill góðilmur í húsinu og allir elskuðu hann! Nærveran hans, fótartakið og háværu ræskin og stunurnar úr reykherberginu fengu mig alltaf til að fá hlýtt í hjartað að vita af honum hjá okkur.
Dóttir okkar Elísabet Assa hljóp alltaf í fangið á honum þegar hún mætti honum og öll dýr sem komu í heimsókn löðuðust líka að honum.
Elsku Lalli okkar! Ég vildi að ég hefði sagt þér oftar hvað mér þótti vænt um þig en ég veit að þú veist það og hugga mig við að vita af þér eiturhressum í friði á staðnum sem engir sjúkdómar, veikindi eða illska er.“
Fékk næstum pílu frá Lalla
Magnús Einþór Áskelsson, kennari í Reykjanesbæ, var einhvern tíma með félögunum í …
Komment