
Lárus Björn Svavarsson, sem varð landsfrægur vegna ýmissa tiltækja og tilsvara í götulífi í Reykjavík, féll frá í dag. Lárus, sem þekktur var undir viðurnefninu Lalli Johns, var 74 ára gamall.
Nafnið Lalli Johns varð á hvers vitorði þegar samnefnd heimildarmynd um hann var gefin út árið 2001. Þar gaf hann beina innsýn inn í líf sitt og lýsti með berorðum og einlægum hætti misjafnlega löglegum uppátækjum, neyslu og draumi um lausn frá slíkum lífsstíl. Myndin fékk Edduverðlaunin það árið. Lárus hafði þar áður verið þekktur í samfélaginu. Síðar sneri hann við blaðinu. Þegar Lárus lést hafði hann verið edrú í tæpa tvo áratugi.
Bróðir Lárusar, Sigurbjörn Svavarsson, greindi frá fráfalli hans á Facebook í kvöld. „Bró. Lalli lést í dag. Hvíl hann í friði.“
Margar frægar sögur hafa gengið af uppátækjum Lalla, sem skiluðu honum oftar en einu sinni á Litla-Hraun. Ein sagan af því var þegar hann var búinn að brjótast inn í hús, búinn að koma ránsfengnum fyrir á gangi þar inni og beið eftir að félagi sinn myndi sækja sig en þá náði hann sér í ljóðbók eftir Stein Steinarr og var að lesa uppi í sófa þegar lögreglan kom.
Lárus lætur eftir sig fjögur börn.
Í viðtalaröðinni Skuggabörn, sem birt var á Mannlífi 2023, lýsti hann því að hann hefði leiðst út í neyslu eftir vistun á barna- og unglingaheimilinu Breiðuvík. Eftir umfjöllun um Breiðavíkurmálið í fjölmiðlum ákvað Lárus að fara í meðferð. Það hélt, með einu falli sem hann reis upp úr.
Í öðru viðtali við Mannlíf árið 2021 sagði Lárus frá reynslu sinni af því að vera við dauðans dyr eftir hjartaáfall.
„Já, svona, mér leið öðruvísi. Mér var eiginlega smábrugðið. Ég vissi bara ekki hvernig það færi.“
Hann lýsti þar draumi sínum í lífinu. „Draumurinn er að vera frjáls og hafa svona speis fyrir sig og sína. Það er það sem ég mest hugsa um.“
Þá sagði hann frá því í viðtalinu hvað hann hefði dreymt kvöldið fyrir viðtalið. „Það var nú lítið. Mig dreymdi nú bara að ég væri staddur einhvers staðar í einhverju húsi og það var mikill gleðskapur. Það var verið að bjóða mér í glas og ég sagði „nei, takk“.“
Komment