Hluti af samfélagslöggæsluverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að auka eftirlit með eigendum skotvopna en greint er frá þessu í tilkyninngu frá henni. Eigendur þeirra geta átt von á því að fá heimsókn frá lögreglunni.
Atriði til að hafa á hreinu að sögn lögreglu
- Skotvopn skal alltaf geyma í viðurkenndum skotvopnaskáp.
- Eigendur skotvopna eiga alltaf að geta framvísað vopnum sem þeir eru skráðir fyrir – eða framvísað lánsheimild, séu þau ekki í þeirra vörslum.
- Skotfæri skal ekki geyma með skotvopnum heldur læst í sér skáp eða læstu hólfi í skotvopnaskáp.
„Lögregla reynir í þessu sem öðru að viðhafa meðalhóf og leiðbeina fólki fremur en grípa til aðgerða við minnsta tilefni. Á þessu eru þó auðvitað ákveðin takmörk og í sumum tilfellum er staðan sú að ekki verður við unað og grípa verður til aðgerða. Þannig voru samtals 17 skotvopn og töluvert magn skotfæra haldlagt við eftirlit sem fram fór um helgina, en í þeim tilfellum voru vörslur með slíkum hætti að óforsvaranlegt varð að teljast. Viðkomandi leyfishafar munu í framhaldinu verða kærðir fyrir brot á vopnalögum,“ segir í tilkynningunni.


Komment